Stefnt er að því að skólar verði opnaðir á ný í Brussel á miðvikudag, en viðamiklar aðgerðir lögreglu, vegna viðvarandi hryðjuógnar, halda áfram næstu daga, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Forsætisráðherra Belgíu tilkynnti þetta undir kvöld.
Alþjóðaskólinn í Brussel, ISB (International School of Brussels) verður þó áfram lokaður, samkvæmt upplýsingum á vef skólans.
Lestarsamgöngur í borginni hefjast einnig að nýju á miðvikudag. Skólar, háskólar og lestarkerfi borgarinnar voru lokuð í dag vegna hættu á hryðjuverkum. Hæsta viðbúnaðarstig verður áfram í gildi í borginni næstu vikuna, en brýnt er fyrir fólki að nú þurfi það að reyna að hefja daglegt líf á nýjan leik. Tilkynnt var fyrir skömmu að sakadómari í Belgíu hafi ákveðið að ákæra fjórða manninn í tengslum við hryðjuverkaárásirnar í París, 13. nóvember, sem urðu 129 að bana. Frá þessu greinir breska ríkisútvarpið BBC á vef sínum.
Maðurinn var handtekinn ásamt fimmtán öðrum í aðgerðum lögreglu í Brussel í gær. Hinum fimmtán hefur öllum verið sleppt úr haldi.
Af þeim fimm sem voru handteknir síðastliðna nótt hefur tveimur verið sleppt úr haldi, en þrír eru enn í fangelsi.
Hefur óneitanlega áhrif á daglegt líf
Hallgrímur Oddsson, fréttaritari Kjarnans í Brussel, segir við Kjarnann að ástandið í Brussel sé svipað og um helgina. „Það er rólegra yfir öllu og vígbúnar löggur og hermenn sýnilegar. Fólk fylgdist vel með fréttum í gærkvöldi, þegar aðgerðir stóðu yfir á nokkrum stöðum í borginni, meðal annars í miðbænum.“ Hallgrímur segist ekki hafa á tilfinningunni að fólk sé hrætt, „en þetta hefur óneitanlega áhrif á daglegt líf, lestarkerfið er lokað þótt nokkrar strætóleiðir gangi enn og skólar á öllum skólastigum hafa verið lokaðir. Margir vinnustaðir hafa hvatt starfsfólk til að vinna heiman frá. Í pósti frá skólanum mínum voru nemendur beðnir um að vera á verði.“