Starfsmaður álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík sem er í verkfalli getur ekki ráðið sig í vinnu hjá öðru fyrirtæki innan Samtaka atvinnulífsins meðan verkfallið stendur yfir, nema hann segi upp störfum, og þá er hann bundinn við þriggja mánaða uppsagnarfrest. „Þetta þýðir að starfsmaðurinn er launalaus í þrjá mánuði áður en hann getur ráðið sig til starfa annars staðar (að því gefnu að verkfallið standi svo lengi yfir)“. Þetta kemur fram í ábendingu frá Jakobína Jónsdóttur, framkvæmdastjóra starfsmannasviðs Rio Tinto Alcan, til starfsmanna sem send var í morgun.
Starfsmenn álversins í Straumsvík fara að óbreyttu í verkfall 2. desember næstkomandi, eða eftir rúma viku. Ólafur Teitur Guðnason, talsmaður Rio Tinto Alcan á Íslandi, sagði í gær að ekki væri sjálfgefið að álverið myndu opna aftur ef því yrði lokað vegna verkfalls starfsmanna þar. Gylfi Ingvarsson, talsmaður starfsmanna álversins, sagði á hinn bóginn að verði það raunin sé fyrirtækið að nota starfsfólk sitt og gera það og verkalýðsfélög að blóraböggli.
Kjaradeila starfsmannanna í Straumsvík hefur staðið mjög lengi. Strandað hefur á því að Rio Tinto vill bjóða meira út í verktöku. Næsti fundur í kjaradeilunni er boðaður á morgun.
Í morgun sendi Jakobína Jónsdóttir, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Rio Tinto Alcan, ábendingu um vangaveltur sem borið hafði á meðal starfsmanna, um hvort þeir geti unnið annars staðar ef til verkfalls kæmi. Jakobína segir að í samþykktum Samtaka atvinnulífsins (SA) segi að enginn félagsmaður megi ráða til sín launþega sem sé í verkfalli hjá öðrum félagsmönnum. „Til þess að geta ráðið sig í vinnu hjá öðru fyrirtæki innan SA þarf starfsmaður í verkfalli því fyrst að segja upp störfum. Aðeins þannig getur hann bundið enda á aðild sína að verkfallinu“.
Segi starfsmaður upp gildi hefðbundinn þriggja mánaða uppsagnarfrestur. Engar undanþágur séu í kjarasamningi starfsmanna álversins sem heimili þeim að hætta störfum í verkfalli án þess að virða uppsagnarfrest.
Niðurstaðan er því, samkvæmt Jakobínu, að starfsmaður sem er í verkfalli „getur ekki ráðið sig í vinnu hjá öðru fyrirtæki innan SA meðan verkfallið stendur yfir, nema hann segi upp störfum, og þá er hann bundinn við þriggja mánaða uppsagnarfrest. Þetta þýðir að starfsmaðurinn er launalaus í þrjá mánuði áður en hann getur ráðið sig til starfa annars staðar (að því gefnu að verkfallið standi svo lengi yfir)“.