Í október síðastliðnum var 113 kaupsamningum og afsölum um atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu þinglýst, og var heildarfasteignamat seldra eigna um 3,7 milljarðar króna. Af heildarviðskiptum voru 33 um verslunar- og skrifstofuhúsnæði, samkvæmt upplýsingum á vef Þjóðskrár
Á sama tíma var 56 kaupsamningum og afsölum um atvinnuhúsnæði utan höfuðborgarsvæðisins þinglýst, en heildar mat þeirra 1,4 milljarður króna.
Samanlagt mat seldra eigna á landinu öllu nam því 5,1 milljarði króna.
Atvinnuhúsnæði hefur hækkað hratt í verði að undanförnu. Raunverð á atvinnuhúsnæði hækkað meira en tuttugu prósent á einu ári, sem telst mikil hækkun, töluvert umfram hækkun á markaði með íbúðir.
Um þessa þróun var meðal annars fjallað í Peningamálum Seðlabanka Íslands frá því í maí og í nóvember, en þar segir að verðið hafi hækkað um tæplega helming frá því það var lægst i upphafi árs 2011. Velta hefur enn fremur aukist jafnt og þétt en er ennþá ekki eins mikil og hún var mest, á árunum 2005 til 2007.
Gunnar Bjarni Viðarsson hagfræðingur sagði í grein á vef Kjarnans í mars á þessu ári, að ekki væri annað að sjá en að verðhækkanir gætu verið í kortunum á markaði með atvinnuhúsnæði. Það hefur gengið eftir, en gera má ráð fyrir að sú þróun haldi áfram, sé mið tekið af spám sem birst hafa að undanförnu.