Íslandsbanki ætlar að breyta kynjaðri framsetningu á félögum mörgæsarinnar Georgs, sem bankinn hefur um áraðir notað við markaðssetningu á sparnaði barna. Þetta kemur fram í Twitter-færslu frá Íslandsbanka sem bankinn birti eftir að umræða skapaðist um félaganna á samfélagsmiðlum. Raunar hefur bankinn þegar breytt lýsingu á einum félaga Georgs.
Lögfræðingurinn Dagbjört Hákonardóttir vakti athygli á því í stöðuuppfærslu á Facebook fyrr í dag að félagar Georgs séu fjórir, tvær stelpur og tveir strákar. „Einn er geðveikt klár og alltaf að læra eitthvað nýtt. Annar er alltaf að segja brandara. Svo er það sá sem gerir ekki annað en að tala, og tala, og tala. Loks er einn sem er alger skvísa og elskar allt bleikt. Hverjir haldið þið að séu strákar og hverjar eru stelpur?“
Um er að ræða górilluna Villa (strákur) sem er alltaf að pæla og spekúlera, kanínuna Nínu (stelpa) sem „gerir ekki annað en að tala, og tala og tala[...]Eina leiðin til að fá Nínu til að hætta að tala er að klappa henni og strjúka á henni eyrum“, nashyrningin Ingu (stelpa) sem er „algjör skvísa og elskar allt bleikt“, og Kristófer krókódíl (strákur) sem er alltaf að segja brandara.
Hildur Lilliendahl Viggósdóttir vakti athygli á málinu á Twitter og fékk viðbrögð frá Íslandsbanka sem þakkaði henni fyrir mjög góða ábendingu. „Við erum búin að vera að skoða þessi mál og erum sammála. Þessu verður breytt“.
Svo virðist sem þegar hafi verið framkvæmdar breytingar á síðunni eins og sjá má af myndunum hér að neðan. Textanum um Nínu, sem talaði og talaði þangað til að henni var strokið, hefur verið breytt.