Gildi lífeyrissjóður hefur, líkt og Lífeyrissjóðs verslunarmanna, lækkað vexti á þeim lánum sem sjóðurinn veitir sjóðsfélögum sínum. Gildi býður nú lægstu föstu verðtryggðu vexti sína frá upphafi og aðrir vextir sem sjóðurinn býður upp á eru með þeim lægstu sem í boði eru á húsnæðislánamarkaðnum í dag.
Mikil hreyfing hefur verið á húsnæðislánamarkaðnum síðan að Lífeyrissjóður verslunarmanna kynnti mjög umfangsmiklar lækkanir á þeim kjörum sem hann býður 150 þúsund sjóðsfélögum sínum í byrjun október síðastliðins. Þau kjör, og raunar kjörin sem Gildi býður líka, eru miklu hagstæðari en þau kjör sem stóru viðskiptabankarnir bjóða. Á verðtryggðum breytilegum vöxtum munar til að mynda tæplega 14 prósent á lægstu vöxtunum (Lífeyrissjóður verslunarmanna) og þeim hæstu (Arion banki og Landsbankinn).
Samkvæmt upplýsingum frá Lífeyrissjóði verslunarmanna hefur orðið „töluverð aukning“ í lántöku hjá sjóðnum síðan að hann tilkynnti um breytingarnar.
Sprengja inn á húsnæðislánamarkaðinn
Í október tilkynnti Lífeyrissjóður verslunarmanna að hann hefði lækkað vexti á verðtryggðum lífeyrissjóðslánum, að sjóðsfélögum bjóðist óverðtryggð lán, að lánshlutfall hafi verið hækkað í 75 prósent og að lántökukostnaður hafi verið lækkaður í 0,75 prósent.
Sjóðsfélögum Lífeyrissjóðs verslunarmanna bjóðast nú 3,6 prósent verðtryggðir fastir vextir, 3,15 prósent verðtryggðir breytilegir vextir og 6,97 prósent fastir óverðtryggðir vextir í 36 mánuði.
Það eru miklu lægri kjör en viðskiptabankarnir bjóða á sambærilegum lánum. Arion banki býður til að mynda 3,65 prósent verðtryggða vexti og 7,15 prósent fasta óverðtryggða vexti í 36 mánuði. Landsbankinn býður sömu breytilegu verðtryggðu vexti en 7,3 prósent fasta óverðtryggða vexti í 36 mánuði. Íslandsbanki býður ekki upp á breytilega verðtryggða vexti en lánar þess í stað lán á föstum verðtryggðum til fimm ára (3,95 prósent). Óverðtryggðu föstu vextir þess banka til 36 mánaða eru 7,25 prósent.
Gildi lækkar sín kjör
Nú hefur Gildi lífeyrissjóður ákveðið að bjóða upp á lægri fasta verðtryggða vexti til 36 mánaða en nokkur annar á markaðnum, eða 3,55 prósent. Breytilegir verðtryggðir vextir eru mun lægri en hjá bönkunum (3,2 prósent) og breytilegir óverðtryggðir vextir 6,75 prósent, sem er mun lægra en hjá bönkunum. Lánshlutfall þeirra lána sem bjóðast á þessum kjörum er þó enn 65 prósent þótt hægt sé að fá tíu prósent viðbótarlán á hærri kjörum. Lífeyrissjóður verslunarmanna býður sínum sjóðsfélögum upp á 75 prósent lán og bankarnir sínum viðskiptavinum upp á 70 prósent af verðmæti eignar, en bjóða síðan upp á dýrari viðbótarlán til þeirra sem þurfa á þeim að halda.
Gildi lækkaði auk þess lántökukostnað sinn niður í 0,5 prósent fyrir nokkru síðan, sem þýðir að hann er helmingur þess sem hann er hjá viðskiptabönkum landsins, þar sem lántökukostnaðurinn er eitt prósent. Til einföldunar þýðir þetta að lántaki sem tekur 30 milljóna króna lán greiðir 150 þúsund krónur í lántökukostnað hjá Gildi en 300 þúsund hjá bönkunum.
Bankarnir þurfa að eiga meira eigið fé
Viðskiptabankarnir hafa ekki brugðist við þessum breytingum með þeim hætti að lækka þau kjör sem þeir bjóða sínum viðskiptavinum upp á niður í það sem lífeyrissjóðirnir hafa verið að bjóða. Þeir hafa borið fyrir sig tvenns konar ástæður sem skerði samkeppnisstöðu þeirra gagnvart öðrum lánveitendum á markaðnum. Í fyrsta lagi eru þeir skyldugir samkvæmt lögum til að eiga mun meira eigið fé en lífeyrissjóðir. Í lok árs 2014 var eigið fé Íslandsbanka, Arion banka og Landsbanka samanlagt tæpir 600 milljarðar króna. Það er reyndar nokkuð umfram eiginfjárkröfu Fjármálaeftirlitsins, sem eru að jafnaði yfir 19 prósent. Lífeyrissjóðirnir þurfa ekki að sitja á svona miklu eigin fé. Raunar eiga þeir ekkert eigið fé. Þeirra hlutverk er að taka við yfir hundrað milljörðum krónum sem landsmönnum er gert að greiða í þá árlega og ávaxta það fé í minnsta lagi um 3,5 prósent verðtryggt á ári.
Lánakjör verri vegna bankaskatts
Í öðru lagi þurfa stóru viðskiptabankarnir að greiða bankaskatt og sérstakan fjársýslukatt. Efnahagssvið Samtaka atvinnulifsins áætlar greiðsla þeirra sé ígildi um 15 prósent af þeim vaxtamun sem bankarnir innheimtu árið 2014.
Stjórnendur bankanna segja í einkasamtölum að þeir gætu boðið almenningi betri kjör ef þeir væru ekki að borga þessa skatta. Bankaskatturinn er til að mynda 0,376 prósent skattur á allar skuldir bankanna. Því sé hann beinlínis álag ofan á útlán. Með öðrum orðum er almenningur að borga bankaskattinn - sem notaður hefur verið til að skila ríkissjóði afgangi undanfarin ár – að minnsta kosti að hluta.
Samtals greiddu Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn átta milljarða króna í bankaskatt í fyrra.