Ríkisendurskoðun telur að áhætta ríkissjóðs vegna ábyrgða á lánum Farice ehf., sem á og rekur sæstrengi milli Íslands og meginlands Evrópu, sé „veruleg“ þrátt fyrir að fjárhagsstaða félagsins hafi batnað á undanförnum árum. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Ríkisendurskoðunar.
Þar segir að árið 2012 hafi Ríkisendurskoðun birt skýrslu um aðkomu ríkisins að málefnum Farice þar sem m.a. hafi komið fram að „fjárhagsstaða félagsins væri erfið og að ríkið hefði þurft að leggja því til fé, bæði í formi hlutafjár og skammtímalána, og gangast í ábyrgðir vegna lántöku þess. Í árslok 2012 hefðu ríkið og Landsvirkjun átt um 60% í félaginu“.
Í nýrri eftirfylgnisskýrslu Ríkisendurskoðunar segir að á tímabilinu 2012 til 2014 hafi fjárhagsstaða Farice batnað umtalsvert. „Engu að síður telur stofnunin að áhætta ríkissjóðs vegna ábyrgða á lánum félagsins sé veruleg. Í árslok 2014 námu skuldir félagsins um 8,3 milljörðum króna og var ríkisábyrgð á um 85% af þeirri fjárhæð“.
Staða Farice var mjög slök eftir bankahrunið. Íslenska ríkið og Landsvirkjun, sem eru stærstu hluthafar Farice, lögðu félaginu til um 1,6 milljarða króna síðla árs 2010 auk þess sem stærstu óverðrtyggðu kröfuhafar Farice samþykktu að breyta kröfum sínum upp á 7,4 milljarða króna í B-hlutafé. Samhliða endurfjármögnuðu veðtryggðir kröfuhafar um átta milljarða króna lán félagsins.