Bandaríska dagblaðið New York Times hefur gagnrýnt Donald Trump og kallað hann „svívirðilegan“ (e. outrageous) eftir að Trump, sem sækist eftir því að verða forsetaframbjóðandi repúblikana, hæddist að einum blaðamanna blaðsins og virtist herma eftir fötlun hans. Frá þessu er greint í The Guardian.
Í ræðu sem Trump hélt á þriðjudagskvöld hæddist Trump að Serge Kovaleski, blaðamanni New York Times, sem hafði dregið í efa þá fullyrðingu Trump að þúsundir múslima í New Jersey hefðu fagnað árásunum gegn Bandaríkjunum 11. september 2001. Samhliða snéri Trump upp á hendur sínar, en Kovaleski þjáist af meðfæddum sjúkdómi sem hefur áhrif á hreyfingu liðamóta.
Kovaleski starfaði hjá Washington Post þegar árásirnar voru gerðar og skrifaði meðal annars skýrslu um þær sem kom út árið 2001. Trump vísaði í skýrsluna máli sínu til stuðnings þegar hann sagði þúsundir múslima í New Jersey hafa fagnað árásunum.
Kovaleski sagði í kjölfarið að hann, eða nokkur annar sem kom að gerð skýrslunnar, kannist ekki við að hafa nokkru sinni sagt að hundruðir, hvað þá þúsundir, manna hafi fagnað því þegar World Trade Center turnarnir hrundu.
Hann sagði það sorglega í þessu öllu saman væri það að lágkúrulega viðbrögð Trump kæmu honum ekkert á óvart. Talsmaður New York Times sagði við Politico að blaðið teldi það „svívirðilegt“ að Trump skyldi hæðast að útliti blaðamannsins.
Trump sjálfur hefur ekki tjáð sig um málið með beinum hætti en hefur þess í stað sent frá sér röð Twitter-skilaboða þar sem hann ræðst gegn New York Times.