Í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um afnám verðtryggingar er ekkert sem gefur til kynna að unnið sé að fullu afnámi verðtryggingar innan ráðuneytis hans.
Björgvin spurði hvort fyrir liggi, eða unnið sé eftir, tímasettri áætlun um afnám verðtryggingar, til hvaða lánaflokka verðtryggingaflokka slíkt bann ætti að ná til, hvort að lagt verði til að þak á upphæð breytilegra verðtryggðra vaxta og ef svo væri hvert vaxtaþakið yrði.
Bjarni svarar engri spurninganna beint en segir að sú vinna sem standi yfir lúti „að því að draga úr vægi verðtryggingar“ og að hún byggist á tillögum sem sérfræðihópur um afnám verðtryggingar skilaði af sér í janúar 2014. Í niðurstöðum hópsins var lagt til að óheimilt yrði að bjóða neytendum verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára, að lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána yrði lengdur í allt að tíu ár, að takmarkanir yrðu gerðar á veðsetningu verðtryggðra íbúðalána og að hvati yrði aukinn til töku og veitingar óverðtryggðra lána.
Hópurinn lagið hins vegar ekki til fullt afnám verðtryggingar.
Í svari Bjarna við fyrirspurn Björgvins segir: „ Unnið er að áhrifamati tillagnanna og hefur í því skyni verið óskað eftir greiningum og álitum frá eftirlitsstofnunum. Þá hefur ráðuneytið lagt áherslu á að meta þær aðgerðir sem mögulegar eru til að koma til móts við tekjulægri einstaklinga og fyrstu kaupendur fasteigna“.
Enginn samhljómur milli ríkisstjórnarflokka
Bjarni hefur raunar áður sagt að ekki standi til að afnema verðtryggingu. Það gerði hann m.a. í apríl síðastliðnum.
Þingmenn Framsóknarflokksins, sem situr í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki Bjarna Benediktssonar, hafa hins vegar haldið uppi þrýstingi á að ríkisstjórnin vinni að afnámi verðtryggingar, enda kom skýrt fram í stefnuskrá flokksins í fyrir kosningarnar árið 2013 að hann ætlaði sér að afnema verðtryggingu á neytendalánum. Þar sagði: „Fyrsta skrefið verði að setja þak á hækkun verðtryggingar neytendalána. Skipaður verði starfshópur sérfræðinga til að undirbúa breytingar á stjórn efnahagsmála samhliða afnámi verðtryggingarinnar, meðal annars til að tryggja hagsmuni lánþega gagnvart of miklum sveiflum á vaxtastigi óverðtryggðra lána. Starfshópurinn skili niðurstöðum fyrir árslok 2013.“
Í október sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í viðtali á á Útvarpi Sögu að ríkisstjórnin ætlaði að afnema verðtryggingu. Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði í útvarpsþætti skömmu síðar að ef ríkisstjórnin færi ekki að koma þessu máli á dagskrá þá yrðu þingmenn að taka málið upp. Þann 6. október flutti Elsa Lára Arnardóttir ræðu í þinginu þar sem hún hvatti til þess að verðtryggingin yrði „tekin úr sambandi“.
Sagði að vinna við afnám verðtryggingar sé komin aftur á skrið
Elsa Lára lagði síðan inn fyrirspurn til Bjarna um hversu stór hluti verðtryggðra eigna íslenskra viðskiptabanka væru verðrtyggð húsnæðislán. Í svari Bjarna, sem var birt í gær, kom fram að 57,3 prósent þeirra eigna væru slik lán.
Elsa Lára sagði í kjölfarið við Vísi að það væri farið að þynnast í þolinmæðinni gagnvart verkleysi ríkisstjórnarinnar í afnámi verðtryggingar. „Við erum ekki búin að gefast upp og við vitum það, eins og Sigmundur sagði, á miðstjórnarfundi okkar um helgina, að loksins væri vinna við afnám verðtryggingar komin á skrið aftur og ég veit að það er unnið núna inni í ráðuneytunum.“ Elsa Lára gekkst við því að Sjálfstæðisflokkurinn hefði „sett spurningamerki við“ afnám verðtryggingar. „Þeir eru ekki jafn ákveðnir og við í því að gera þetta en það er samt kominn samhljómur núna,“ sagði Elsa Lára við Vísi í dag.