Engar markverðar breytingar hafa átt sér stað á hlutfalli íslenskra ríkisborgara sem fluttu til og frá landinu á mismunandi aldursbili árið 2015 borið saman við sambærilegt hlutfall áranna 1986 til 2014. Aukin fjöldi brottfluttra er ekki umfram það sem telja má eðlilega sveiflu miðað við fyrri ár. „Þessi niðurstaða á við hvort sem horft er til búferlaflutninga hjá einstaklingum eða kjarnafjölskyldum." Þetta kemur fram í nýrri útgáfu Hagstofu Íslands sem mælir breytingar í flutningsjöfnuði fyrstu þrjá ársfjórðunga 2015.
Morgunblaðið greindi frá því 11. nóvember síðastliðinn að alls hafi 3.210 íslenskir ríkisborgarar frá Íslandi á fyrstu níu mánuðum ársins 2015, eða um 1.130 fleiri en fluttu til þess. Brottfluttir íslenskir ríkisborgara umfram heimkomna hefðu einungis fimm sinnum verið fleiri samkvæmt gagnagrunni Hagstofu Íslands, sem nær til 1961. Það voru árin 1970, 1995, 2009, 2010 og 2011. Öll þau ár komu hins vegar í kjölfar kreppuára, þ.e. ára þar sem samdráttur ríkti í íslensku hagkerfi. Það er ekki raunin nú, þar sem hagvöxtur hefur verið hérlendis frá árinu 2011. Því er ekki um kreppuflutninga að ræða.
Þar var einnig rætt við Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands. Hann segir að það virðist eitthvað djúpstæðara á ferðinni og að vísbendingar séu um að margt háskólafólk flytji úr landi. Batinn á vinnumarkaði, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, hefði ekki skilað sér til menntaðs fólks nema að takmörkuðu leyti.
Ásgeir sagði rannsóknir sýna að það sé einkum ungt fólk sem hleypi heimdraganum og leiti betri kjara erlendis. Því sé mögulegt að of mikill launajöfnuður sé orðinn vandamál þegar komi að því að halda ungu fólki í landinu.
Hagstofan getur ekki greint ástæður þess að fólk flytur
Þessu hafnar Hagstofan í nýrri útgáfu sinni. Þar segir hún að ekki sjáist neinn munur sé horft til þeirra sem eru yngri en 40 annars vegar og eldri en 45 hins vegar. Þess þá heldur sjást engar vísbendingar um breytta búferlaflutninga þeirra sem eru 20-24 ára eða 25-29 ára. Einu marktæku niðurstöðurnar taka til aldurshópsins 40-44 ára sem eru hreyfanlegri síðustu ár (2009-2015) en áður hefur sést. Árið 2015 fluttu marktækt fleiri í þessum aldurshópi til Íslands en áður og lítillega fleiri fluttu brott. Eftir hrunið 2008, einkum frá árinu 2010, má almennt greina meiri hreyfanleika fólks á aldrinum 40-60 ára bæði í brottflutningi og aðflutningi.“
Breytileiki flutningsjöfnuðar hjá einstaklingum og fjölskyldum, milli tveggja samliggjandi ára, sýni því ekki marktækar breytingar sé horft til tólf mánaða, frá 1. október til 30. september, árin 1971–2015. „Í því samhengi eru árin 1989 og 2009 frábrugðin sé horft til einstaklinga en aðeins 2009 sé horft til fjölskyldna. Þar eru greinileg áhrif efnahagshrunsins 2008.“
Í úttekt Hagstofunnar segir að gögn um brottflutta og aðflutta íslenska ríkisborgara sýni sterka fylgni við líkan sem innihaldi fjölda útskrifaðra stúdenta, þróun vergrar landsframleiðslu og atvinnuleysisstig. Líkan Hagstofunnar sýni þó einungis fylgni en getur ekki gefið upplýsingar um orsöku né er það tæmandi. „Aðrir þættir gætu hugsanlega varpað frekara ljósi á flutningsjöfnuð, t.d. menntun og starf, en þau gögn eru ekki tiltæk í dag.“