„Stjórnarráðið hefur verið meðvitað um að utanaðkomandi árásir sem þessar gætu átt sér stað og meðal annars þess vegna hafa upplýsingar sem ávallt eru aðgengilegar almenningi á opnum upplýsinga- og fréttavefjum verið kirfilega aðskildar frá öðrum gögnum ráðuneyta. Við höfum verið og erum sífellt að vinna að því að efla gagnaöryggi enn frekar og það er nú sem fyrr gert með hópi sérfræðinga á þessu sviði. Það er miður að þessi upplýsingavefur hafi legið niðri tímabundið vegna þessa“ segir Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, vegna tölvu árása Anonymous-samtakanna, sem Kjarninn greindi frá í gærkvöldi.
Samtökin sögðu ástæður árásanna vera hvalveiðar Íslendinga.
Árásin beindist að netþjónum vefja ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, en engin gögn voru í hættu, samkvæmt tilkynningu stjórnvalda. Vefirnir voru lokaðir fyrir umferð og heimsóknum þar til ljóst var að ástandið var komið aftur í eðlilegt horf, á tíunda tímanum í morgun, en fimm vefsíður voru lokaðar eftir árásirnar.