Sólarkísilver Silicor Materials á Grundartanga verður kolefnishlutlaust og mun því ekki auka útblástur gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Það verður tryggt með aðgerðum samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum stöðlum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Silicor, en fyrsta skrefið í þessum aðgerðum hefur verið stigið með samningi við Kolvið, sjóð sem stofnaður var af Landvernd og Skógræktarfélagi Íslands, um að planta 26 þúsund trjám sem binda alla losun koltvísýrings sem verður til við starfsemi sólarkísilversins á Grundartanga. „Sólarkísilverið mun framleiða sólarkísil fyrir sólarhlöð sem virkjað geta úr geislum sólarinnar 38 sinnum meiri raforku en fer til framleiðslunnar. Losun koltvísýrings vegna framleiðslunnar verður aðeins 48 tonn á ári sem er svipað og losun 24 dæmisgerðra heimilisbifreiða,“ segir í fréttatilkynningu frá Silicor.
Silcor Material er bandarískt fyrirtæki með höfuðstöðvar í Kaliforníu í Bandaríkjunum en forstjóri fyrirtækisins er Theresa Jester.
Sólarkísilverið mun árlega framleiða nítján þúsund tonn af sólarkísil og nota 85 megavött af raforku. Við sólarkísilverið munu starfa um 450 manns, þar af um þriðjungur í störfum sem krefjast háskólamenntunar.
Áætluð fjárfesting Silicor á Íslandi vegna sólarkísilvers á Grundartanga er um 900 miljónir Bandaríkjadala, eða að jafnvirði um 120 milljarða króna miðað við núverandi gengi.
Undirbúningur að uppbyggingu starfseminnar á Grundartanga hófst árið 2013. Áætlað er að framkvæmdir hefjist um mitt ár 2016 og sólarkísilverið taki til starfa árið 2018.
Næstu tvær vikur verða leiðtogar ríkja jarðarinnar, ásamt fjölda sérfræðinga frá háskólum og fyrirtækjum, saman komnir í París með það fyrir augum að sameinast um leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og sporna þannig gegn hlýnun jarðar af mannavöldum.
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um þau álitamál, sem verða til umfjöllunar á fundinum, í fréttum, fréttaskýringum og hlaðvarpsþáttum, en Birgir Þór Harðarson, framleiðslustjóri Kjarnans, mun fara á fundinn fyrir hönd Kjarnans og greina frá framvindu mála af vettvangi.
Silicor segist í tilkynningu kappkosta að uppfylla háleit markmið um umhverfisvæna starfsemi, og gott betur.
Umdeild uppbygging - Krafa um umhverfismat
Uppbygging Silicor á Grundartanga er umdeild. Búið er að stefna íslenska ríkinu og Silicor Material vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar. Að kærunni standa umhverfissamtök, bændur á áhrifasvæði framkvæmdanna, íbúar og Kjósahreppur. Þess er krafist að ákvörðun Skipulagsstofnunar, um að kísilverksmiðjan þurfi ekki að fara í umhverfismat, verði ógild, en Kjarninn birti stefnuna í heild sinni 27. október síðastliðinn.
Fjögur meginatriði
Í tilkynningu Silicor segir, að ef ekki verði stigin stór skref gegn aukinni mengun af mannavöldum, þá muni það hafa „alvarlegar afleiðingar fyrir lífsskilyrði á jörðinni.“
„Silicor vill verða hluti af lausninni sem kemur í veg fyrir þær. Framlag Silicor er eftirfarandi:
- Að framleiða sólarkísil með ódýrari og umhverfisvænni hætti en aðrir og þannig stuðla að aukinni notkun orkugjafa í heiminum sem ekki valda losun gróðurhúsalofttegunda.
- Að grípa til aðgerða samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum stöðlum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til jafns við þann útblástur koltvísýrings sem kemur frá sólarkísilveri fyrirtækisins.
- Að afla upprunavottorða með þeirri raforku sem sólarkísilverið notar við framleiðslu til að tryggja að framleiðsla raforkunnar auki ekki losun gróðurhúsalofttegunda.
- Að binda allan koltvísýring sem starfsemi sólarkísilversins losar, bæði framleiðslan og önnur starfsemi á athafnasvæði þess, með skógrækt í samtarfi við Kolvið,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Leggja áherslu á að verkefnið sé umhverfisvænt
Sólarkísilver Silicor mun losa um 48 tonn af koltvísýringi (CO2) ári, og segja forsvarsmenn fyrirtækisins að mikill árangur hafi náðst við að draga ur losun, með rannsóknum og þróun innan fyrirtækisins. „Til samanburðar losar dæmigerður heimilisbíll á Íslandi á bilinu 1 til 2 tonn á ári og álver 400 til 500 þúsund tonn. Þessi litla losun sólarkísilversins er árangur af starfi vísindamanna Silicor sem tekist hefur að draga verulega úr losun frá því sem upphaflega var áætlað. Þá hefur Silicor áætlað að útblástur frá annarri starfsemi, flutningum og öðru sem krefst notkunar vinnuvéla, á athafnasvæði Silicor á Grundartanga verði á bilinu 2.600 til 2.800 tonn á ári,“ í segir í fréttatilkynningunni.