Nú er reynt til þrautar að ná samningum í kjaradeilu starfsmanna í álveri Rio Tinto Alcan í Straumsvík og fyrirtækisins. Þrátt fyrir stíf fundahöld að undanförnu hafa samningar ekki náðst en verkfall hefst 2. desember ef ekki tekst að ná samningum.
Eins og fram hefur komið, þá hafa stjórnendur Rio Tinto Alcan tilkynnt bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði um að mögulega gæti álverið lokað varanlega ef til verkfalls kemur með tilheyrandi framleiðslustoppi í álverinu.
Það gæti reynst afar kostnaðarsamt fyrir fyrirtækið, þar sem móðurfélagsábyrgð er á umsömdum raforkukaupum fyrirtækisins, samkvæmt umfjöllun Viðskiptablaðsins, en samningur við Landsvirkjun gildir út árið 2036.
Rio Tinto hefur gengið í gegnum mikið hagræðingarferli á heimsvísu í álframleiðslu sinni, vegna erfiðra ytri aðstæðna. Frá árinu 2009 hefur fyrirtækið lokað fjórum álverum og selt eignarhluti í fjórum til viðbótar.
Guðmundur Ragnarsson, formaður félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM), hefur gagnrýnt afstöðu Rio Tinto harðlega, og meðal annars sagt að fyrirtækið sé alræmt á heimsvísu sem „alþjóðlegur auðhringur“ sem svífist einskis í hagsmunabaráttu sinni. „Um hvað snýst deilan í ÍSAL í raun? Hún snýst um alþjóðavæðingu auðhringa sem beita öllum ráðum til að sjúga eins og þeir geta út úr þeim hagkerfum sem þeir starfa í, með því að greiða lág laun, helst enga skatta né aðrar skyldur,“ skrifar Guðmundur í pistli á vef VM.