Forsvarsmenn stærstu lífeyrissjóða landsins, sem leiða möguleg kaup lífeyrissjóða landsins á Arion banka, hafa fundað tvívegis með aðilum frá slitastjórn Kaupþings vegna kaupanna. Samkvæmt heimildum Kjarnans áttu fundirnir tveir sér annars vegar stað mánudaginn 16. nóvember og hins vegar í síðustu viku. Viðræður eru ekki orðnar formlegar heldur er um þreifingar að ræða. Því er of snemmt að segja til um hvort og þá hvernig slitabú Kaupþings og lífeyrissjóðir landsins nái saman um kaup á einum af þremur stóru viðskiptabönkum landsins.
Samkvæmt samþykktri áætlun stjórnvalda um afnám hafta, sem fjallar m.a. um hvernig eigi að ljúka slitabúum föllnu bankanna, þurfa slitastjórnir þeirra að fá staðfestingu dómstóla á nauðasamningum sínum fyrir 15. mars 2016. Upphaflega átti slík staðfesting að liggja fyrir í lok þessa árs, annars myndi stöðugleikaskattur leggjast á búin. Það þýðir samt ekki að slitastjórn Kaupþings þurfi að selja 87 prósent hlut sinn í Arion banka fyrir 15. mars. Í áætlun stjórnvalda, og þeim lögum sem hafa verið samþykkt til að hrinda henni í áætlun, kemur nefnilega skýrt fram að slitastjórnin fái þrjú ár til að selja bankann.
Það er því ekki tímaþrýstingur á slitastjórn Kaupþings um að selja bankann hratt. Eignarhald hans mun einfaldlega færast til eignarhaldsfélags í eigu kröfuhafa eftir að slitum á búinu lýkur, verði Arion banki óseldur á þeim tíma. Þessi staða litar mjög þær þreifingar sem eru nú til staðar milli lífeyrissjóðanna og Kaupþings. Slitastjórnin hefur einfaldlega í mjög mörg önnur horn að líta þessi misserin við að tryggja framgang nauðasamnings síns og mætingu stöðugleikaskilyrða. Þau verkefni eru í forgangi fyrst slitastjórnin fékk jafn rúman tíma og raun ber vitni til að selja Arion banka.
Hættu við að fara með Virðingu eða Arctica Finance
Kjarninn greindi frá því 14. nóvember síðastliðinn að lífeyrissjóðir landsins ætli sér að kaupa Arion banka. Þeir ætla ekki að taka þátt í þeim kaupendahópum sem fjármálafyrirtækin Virðing og Arctica Finance hafa verið að reyna að setja saman undanfarnar vikur, þrátt fyrir mikinn þrýsting á stærstu sjóði landsins um að gera það.
Stærstu lífeyrissjóðir landsins, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi lífeyrissjóður munu leiða kaupin. Öllum lífeyrissjóðum landsins verður boðið að vera með og gangi kaupin eftir ætla lífeyrissjóðirnir að skrá Arion banka á markað strax á næsta ári.
Fyrir liggur að Arion banki verður ekki keyptur af innlendum aðilum nema með aðkomu lífeyrissjóða landsins. Umfang kaupanna, sem verður líklega um 100 milljarðar króna, er það mikið að aðrir fjárfestar á íslenska markaðnum hafa ekki bolmagn til að ráðast í þau án þeirra aðkomu. Þess vegna unnu þau tvö fjármálafyrirtæki sem hafa reyndu að koma saman kaupendahópi að Arion banka fyrr í haust, Arctica Finance og Virðing, mikið að fá stærstu lífeyrissjóði landsins til liðs við sig.
Stjórnir og stjórnendur stærstu lífeyrissjóða landsins ákváðu hins vegar í byrjun nóvember að fara ekki í samstarf með Virðingu eða Arctica. Þess í stað ætla þeir að bjóða sjálfir beint í 87 prósent hlut slitastjórnar Kaupþings í Arion banka, án milliliða á borð við ofangreind fyrirtæki.
Ljóst er þó að flestir lífeyrissjóðir landsins þurfa að vinna saman ef að kaupunum á Arion á að verða. Stærstu sjóðir landsins, Lífeyrissjóður verslunarmanna, LSR og Gildi, munu taka stóra hluti í bankanum, allt að tíu prósent hvor. Aðeins minni sjóðir munu geta tekið í kringum fimm prósent hlut hver og svo koll af kolli. Þannig ætla sjóðirnir sér að kaupa þann 87 prósent hlut slitastjórnar Kaupþings sem er til sölu og vera eigendur bankans á móti íslenska ríkinu, sem á 13 prósent.