Gylfi Ingvason, talsmaður starfsmanna í álveri Rio
Tinto Alcan í Straumsvík, segir að fjöldi fólks hafi verið í sambandi við hann
upp á síðkastið vegna orðróms um að Rio Tinto hafi aðrar fyrirtætlanir með
raforku sem fyrirtækið kaupir af Landsvirkjun en að nýta hana í álframleiðslu. „Þeir
lokuðu álveri í Englandi og fengu hærra verð fyrir að selja raforkuna annað.
Það er verið að líta til þess að umræðan um raforkustrenginn sé komin lengra og
að Rio Tinto Alcan horfi til þess að nota raforkuna í eitthvað annað en í
álverið. Þeir fái meira fyrir orkuna þegar sæstrengurinn verður kominn, á
einhverjum tímapunkti,“ segir Gylfi við Morgunblaðið í dag.
Kjaraviðræður starfsmanna álversins eru í algjörum hnút, en verkfall starfsmanna á að hefjast miðvikudaginn 2. desember. Verði af því mun álverinu loka og forsvarsmenn þess hafa sagt opinberlega að svo kostnaðarsamt sé að endurreisa álverið að mögulega verði það ekki opnað á ný fari sem horfir.
Viðræðuaðilum deilir einungis á um eitt atriði: Rio Tinto Alcan vill fá að nýta sér nýjar heimildir til að gera hluta starfsmanna sinna að verktökum. Forsvarsmenn fyrirtækisins segja að um 32 störf starfsmanna sé að ræða en verkalýðshreyfingin segir það vera vanmat, störfin séu nær 100.
Í Morgunblaðinu segir Gylfi að séu störfin um 30 þá sæti það furðu furðu að fyrirtækið standi og falli með því að því verði gert kleift að ráða verktaka í stað starfsmanna. Hann spyr af hverju Rio Tinto Alcan hafi þá ekki gert slíkar kröfur til stjórnenda, en búið er að ganga frá samningum við stjórnendur og millistjórnendur Rio Tinto Alcan.
Gylfi segir að starfsmenn ætli ekki að láta undan kröfum fyrirtækisins þótt sú afstaða kunni að kosta störf allar starfsmanna þess. „Þá er fyrirtækið búið að taka ákvörðun og notar kjaradeiluna til að loka fyrirtækinu. Það getur ekki verið að kjaradeilan valdi þessari stöðu í málinu, það er alveg útilokað.“
Með raforkusamning til 2036
Stjórnendur Rio Tinto Alcan hafa tilkynnt bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði um að mögulega gæti álverið lokað varanlega ef til verkfalls kemur með tilheyrandi framleiðslustoppi í álverinu.
Það gæti reynst afar kostnaðarsamt fyrir fyrirtækið, þar sem móðurfélagsábyrgð er á umsömdum raforkukaupum fyrirtækisins, samkvæmt nýlegri umfjöllun Viðskiptablaðsins, en samningur við Landsvirkjun gildir út árið 2036.
Rio Tinto hefur gengið í gegnum mikið hagræðingarferli á heimsvísu í álframleiðslu sinni, vegna erfiðra ytri aðstæðna. Frá árinu 2009 hefur fyrirtækið lokað fjórum álverum og selt eignarhluti í fjórum til viðbótar.
Guðmundur Ragnarsson, formaður félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM), er á meðal þeirra sem hefur gagnrýnt afstöðu Rio Tinto Alcan harðlega, og meðal annars sagt að fyrirtækið sé alræmt á heimsvísu sem „alþjóðlegur auðhringur“ sem svífist einskis í hagsmunabaráttu sinni. „Um hvað snýst deilan í ÍSAL í raun? Hún snýst um alþjóðavæðingu auðhringa sem beita öllum ráðum til að sjúga eins og þeir geta út úr þeim hagkerfum sem þeir starfa í, með því að greiða lág laun, helst enga skatta né aðrar skyldur,“ skrifaði Guðmundur í pistli á vef VM fyrir helgi.