Að venju bauð Kjarninn upp á hlaðborð fréttaskýringa og áhugaverðs efnis um liðna helgi. Kristinn Haukur Guðnason sagnfræðingur fjallaði til að mynda um ótrúlega stöðu sem komin er upp í frjálsíþróttaheiminum eftir lyfjahneyksli í Rússlandi.
Kjarninn greindi frá því fyrstur allra miðla á föstudagskvöldið að Anonymous samtökin hefðu ráðist á íslenskar ráðuneytissíður með þeim afleiðingum að þær lágu niðri í um hálfan sólarhring. Ástæðan: hvalveiðar Íslendinga.
Magnús Halldórsson skrifaði fréttaskýringu um sífellt lækkandi veiðigjöld, sem gera það að verkum að mikill hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja verður enn meiri.
Í Kjarnanum hefur verið lögð mikið áhersla á umfjöllun um loftlagsmál undanfarin misseri og Birgir Þór Harðarson blaðamaður mun von bráðar fara fyrir okkar hönd á COP21 fundinn í París, sem kallaður hefur verið mikilvægasti fundur mannkyns. Á laugardag birtist fréttaskýring þar sem farið var ítarlega yfir hvar Ísland stendur í loftlagsmálum og hvort við höfum forskot á aðra með hreinu orkuna okkar.
Sigríður Túlinius skrifaði úttekt á Jeremy Corbyn, nýjum leiðtoga Verkamannaflokksins, og þeim áskorunum sem hann stendur frammi fyrir og Borgþór Arngrímsson sagði frá því að sitthvað sé rotið í ríki Dana. Fréttir af alls kyns klúðri þeirra hafa nánast verið daglegt brauð í dönskum fjölmiðlum um nokkurra ára skeið og virðast engan enda ætla að taka.
Þá stendur Seðlabanki Bandaríkjanna frammi fyrir flóknum aðstæðum á síðasta vaxtaákvörðunarfundi ársins. Verða stýrivextir hækkaðir eða ekki? Í fréttaskýringu Kjarnans um málið kemur fram að vaxtahækkun gæti sett stórþjóðir á hliðina.