Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir sjálfsagt að skoða aðra kosti í gjaldmiðlamálum, en að nokkrum árum liðnum eftir að Ísland hafi sótt fram að styrkleika og komið sér í öfundsverða stöðu. Þetta kom fram í svari Bjarna við fyrirspurn Heiðu Kristínar Helgadóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar, á Alþingi í gær.
Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti ályktun á landsfundi sínum í lok október þess efnis að kanna skuli til þrautar upptöku myntar sem sé gjaldgeng í alþjóðaviðskiptum í stað íslenskrar krónu.
Heiða Kristín spurði Bjarna hvort hann væri að vinna í samræmi við þá ályktun um gjaldmiðlamál sem samþykkt var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, og ef svo væri, hvað fælist þá í þeirri vinnu. Bjarni svaraði spurningunni ekki beint en sagði að hægt væri að samsinna því að íslenska krónan í höftum væri ekki framtíðarlausn á okkar gjaldmiðlamálum. Þess vegna væri verið að vinna að því að aflétta höftum með trúverðuglegri áætlun þar um.
Bjarni vakti athygli Heiðu Kristínar á skrifum hagfræðingsins Paul Krugman um að val á gjaldmiðli snérist meðal annars um það hvernig menn vilja fara í gegnum krísur. „Hann leiðir að því rök að með því að Ísland hafi haft sjálfstæðan gjaldmiðil en Írar hafi haft sameiginlegan gjaldmiðil með evrusvæðinu þá hafi aðlögunin eftir hrunið verið okkur miklu mun auðveldari. Þetta er hluti umræðunnar um gjaldmiðil. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi eitthvað sérstaklega mikið til að koma til að menn gefi frá sér þá hagstjórnarmöguleika sem felast í sjálfstæðum gjaldmiðli. Með sjálfstæðum gjaldmiðli verja menn alltaf störfin.“
Bjarni sagðist líka vera þeirrar skoðunar að skoða ætti valmöguleika í gjaldmiðlamálum út frá styrkleika. „Þess vegna finnst mér, eins og sakir standa, þá hljóti það að vera meginviðfangsefni okkar að taka til í eigin ranni, að greiða niður skuldir, að tryggja afgang á ríkisfjármálum og opinberum fjármálum almennt, að stuðla að afgangi á viðskiptum við útlönd og þannig sækja fram til sterkari stöðu, sem á endanum leiðir til þess að ef menn vilja í framtíðinni gera breytingar þá tökum við þær breytingar út frá styrkleika. En eins og sakir standa tel ég okkur ekki hafa annan möguleika en krónuna og við gertum vel náð árangri með því eins og við höfum sýnt.“
Heiða Kristín sagðist skilja svar ráðherra þannig að það væri ekki verið að vinna í samræmi við samþykkta landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins að öðru leyti en með áætlun um losun hafta. Hún benti einnig á að þótt áætlunin gangi fullkomlega eftir þá muni krónan samt sem áður vera áfram í einhverskonar höftum. Þótt krónan hafi reynst ágætlega við úrlausn þess vanda sem Ísland rataði í þá hafi hún einnig skilað okkur í þann vanda sem vinna þurfti úr.
Bjarni sagði að það hefði ekki verið gjaldmiðillinn sem kom Íslandi í vanda fyrir hrunið, heldur óábyrg hegðun. Það mætti til að mynda segja með sömu rökum að ástæða þess að Grikkir hefðu ratað í vanda væru lágir vextir á evruskuldabréfum sem þeir gátu gefið út, en ástæðan fyrir vanda þeirra væri hins vegar sú að þeir eyddu um efni fram. „Við getum sótt fram af styrkleika á næstu árum, komið okkur í mjög öfundsverða stöðu og upp frá því finnst mér sjálfsagt að skoða alla kosti ,eins og kveðið var á um í þessari landsfundarályktun.“