Krafa slitastjórnar Glitnis um staðfestingu nauðasamnings verður tekin fyrir í héraðsdómi Reykjavíkur næstkomandi föstudag, 4. desember. Þinghaldið hefst klukkan 9:30 um morguninn. Þetta kemur fram í frétt sem birt var á heimasíðu Glitnis í dag. Krafa slitastjórnar Landsbankans verður tekin fyrir 15. desember, samkvæmt frétt á heimasíðu hans. Slitastjórn Kaupþings hefur ekki birt frétt á sinni heimasíðu um hvenær staðfesting hans nauðasamnings verður tekin fyrir.
99,9 prósent kröfuhafa Glitnis samþykktu nauðasamning slitabúsins á kröfuhafafundi sem haldinn var 20. nóvember síðastliðinn. Nauðasamningurinn þarf að vera staðfestur af dómstólum áður en að hægt verður að greiða kröfuhöfum út og félag utan um aðrar eignir verður afhent þeim. Á þeim fundi var samþykkt að greiða uppfært stöðugleikaframlag til ríkisins, sem felst einkum í því að ríkið mun eignast Íslandsbanka að öllu leyti.
Á að skila stöðugleikaframlagi upp á 379 milljarða
Samkvæmt kynningu sem stjórnvöld héldu um áætlun sína um losun hafta í lok október síðastliðinn munu slitabú föllnu bankanna greiða tæplega 379 milljarða króna í stöðugleikaframlög. Þar af átti Glitnir að greiða langmest, eða 229 milljarða króna. Kröfuhafar Landsbankans samþykktu nauðasamning hans 23. nóvember síðastliðinn. Alls samþykktu 96,67 prósent kröfuhafa hann. Samkvæmt áætlun stjórnvalda á slitabúið að greiða 23 milljarða króna í stöðugleikaframlag. Kröfuhafar Kauþings samþykktu sinn nauðasamning sama dag, en slitabúið á að greiða 127 milljarða króna í stöðugleikaframlag.
Samtals gera áætlanir stjórnvalda því ráð fyrir að slitabúin þrjú greiði 379 milljarða króna í stöðugleikaframlag. Seðlabanki Íslands er búinn að samþykkja tillögur slitabúanna og veita þeim undanþágu frá fjármagnshöftum til að greiða kröfuhöfum sínum. Ríkisstjórnin styður það samkomulag sem liggur fyrir. Því á einungis eftir að klára málið fyrir dómstólum til að hægt sé að ljúka slitum Glitnis, Kaupþings og Landsbankans sem staðið hafa yfir frá því í efnahagshruninu í október 2008.
Búin hafa þangað til 15. mars 2016 til að klára slitin. Verði þau ekki frágengin þá mun leggjast á 39 prósent stöðugleikaskattur sem, samkvæmt kynningu stjórnvalda, á að geta skilað þeim allt að 850 milljörðum króna.
Allt annað en óumdeild leið
Sú leið sem stjórnvöld eru að fara í uppgjöri slitabúa bankanna er allt annað en óumdeild. InDefence-hópurinn hefur meðal annars gagnrýnt stjórnvöld harðlega og sagt að þau hafi beitt blekkingum þegar þau kynntu niðurstöðu um stöðugleikaframlag. Í umsögn samtakanna um mat á undanþágubeiðnum slitabúanna sagði meðal annars: „Þessi vandi byggist á því að kröfuhöfum slitabúanna verður hleypt út úr höftum með allt að 500 milljarða króna í erlendum gjaldeyri. Fyrir vikið sitja almenningur, fyrirtæki og lífeyrissjóðir á Íslandi eftir með mikla efnahagslega áhættu og verða að treysta á bjartsýna hagvaxtarspá Seðlabanka Íslands. Standist hún ekki, munu lífskjör á Íslandi skerðast og áframhaldandi fjármagnshöft til margra ára. Það er óásættanlegt að fyrirhugaðar aðgerðir tryggi hagsmuni kröfuhafa, en skapi efnahagslega áhættu fyrir heimili og fyrirtæki á Íslandi.“