Í september tilkynnti Umhverfisverndarráð Bandaríkjanna að Volkswagen hefði búið bíla sína ólöglegum hugbúnaði sem var til þess gerður að svindla á útblástursprófunum. Dísel-bílar bílaframleiðandans losa þess vegna 40 sinnum meira af gróðurhúsalofttegundum en leyft er.
Bandarísk stjórnvöld fyrirskipuðu innköllun 482.000 frá bæði Volkswagen og dótturfyrirtækinu Audi. Bílarnir voru allir framleiddir á árunum 2009 til 2015. Um leið sögðust stjórnvöld vestra vilja sekta Volkswagen um hærri upphæð en sem nemur árshagnaði fyrirtækisins, eða um 18 milljarða dala. Stjórnendur fyrirtækisins hafa sett 6,5 milljarða evra til hliðar til þess að borga skaðabætur og kostnað vegna svindlsins. Auk þess þarf Volkswagen að standa straum af viðgerðum á þeim bílum sem hafa verið innkallaðir. Stjórnendur fyrirtæksins báðust opinberlega afsökunar á svindlinu.
Þeir eru víðar en bara í Bandaríkjunum, meðal annars á Íslandi. Í tilkynningu frá Heklu, umboðsaðila Volkswagen á Íslandi, sem send var út 30. september sagði að hugbúnaðurinn sem svindlaði á útblástursprófunum væri í 3.647 bílum hérlendis.
Svindlið hefur haft margvísleg önnur áhrif á Volkswagen. Það kostaði til að mynda Martin Winterkorn, forstjóra fyrirtækisins, starfið og markaðsvirði félagsins hefur hrunið. Þá skilaði Volkswagen tapi á þriðja ársfjórðungi 2015 upp á tæpa 500 milljarða króna, en það var í fyrsta sinn í meira en 15 ár sem bílaframleiðandinn skilaði rekstrartapi.
Opinberun á svindlinu hafði ekki stórkostleg áhrif á sölu Volkswagen bíla í októbermánuði. Nú hafa tölur um sölu á bílunum í Bandaríkjunum í nóvember hins vegar verið birtar og ljóst að algjört hrun hefur orðið á sölu þeirra. Alls seldust næstum 25 prósent færri Volkswagen bílar í Bandaríkjunum í nóvember 2015 en í sama mánuði árið áður. Þá seldust 31.725 slíkir bílar en nú 23.883. Mestur var samdrátturinn í sölu á Golf-bílum, sem dróst saman um 64 prósent, samkvæmt frétt The Verge um málið.