Syed Farook og Tashfeen Malik myrtu fjórtán manns og særðu 17 í árás í húsnæði Inland Regional Center, sem er þjónustumiðstöð fyrir fólk með þroskaskerðingu í San Bernardino-borg í Kaliforníu, í gær. Farook og Malik voru vopnuð árásarriflum og skammbyssum. Þá fannst sprengiefni á staðnum, en það var gert óvirkt eftir að árásinni var lokið. Parið lést eftir skotbardaga við fjölmennt lið lögreglu eftir að það hafði lagt á flótta. Skotárásin er sú mannskæðasta sem átt hefur sér stað í Bandaríkjunum síðan Sandy Hook fjöldamorðin voru framin árið 2012.
Samkvæmt frétt the Guardian lagði parið á flótta á bíl eftir árásina. Farook og Malik, sem voru 28 og 27 ára, voru skotin til bana eftir mikla eftirför lögreglu eftir svartri bifreið þeirra um götur San Bernardino-borgar. Farook var bandarískur ríkisborgari og fæddist í landinu en foreldrar hans komu til landsins frá Pakistan. Fréttum um hvort hann og Malik hafi verið gift ber ekki saman, en samkvæmt The New York Times áttu þau sex mánaða dóttur saman. Hún var í pössun hjá móður Farook þegar foreldrar hennar frömdu ódæðisverkið. Þau sögðu henni að þau væri að fara til læknis.
Farook starfaði í heilbrigðisgeiranum í San Bernardino og hafði verið á samkomu með kollegum sínum fyrr um daginn. Samkvæmt lögreglu yfirgaf hann þá samkomu reiður og snéri síðan til baka ásamt maka sínum til að fremja ódæðið.
Árásin á þjónustumiðstöðina hófst um klukkan ellefu að morgni að staðartíma. Flestir þeirra sem voru myrtir eða slösuðust voru í námunda við miðstöðina á þeim tíma, að sögn lögreglu.