Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi flugfélagsins WOW, gaf í morgun Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, og Vigdísi Hauksdóttur, formanni fjárlaganefndar, verðbólgueyðandi undrasmyrsl sem að hans sögn á að slá hratt og vel á óþarfa verðbólgu.
Ástæða þess að Skúli færði Bjarna og Vigdísi umrætt smyrsl, sem hefur augljóslega ekki ofangreind áhrif, er sú að WOW air vildi minna opinbera aðila á að fara vel með skattpeningua landsmanna, meðal annars með því að bjóða út flugmiðakaup. Skúli fullyrðir að ríkið getið sparað sér hundruðir milljóna króna á ári með því að kaupa flugmiða víðar en hjá Icelandair. Félag atvinnurekenda hefur ítrekað bent á undanfarið að það hvíli ótvíræð skylda á ríkinu að bjóða út farmiðakaupin, sem staðfest hafi verið með úrskurði kærunefndar útboðsmála frá því í apríl síðastliðnum. Ríkt hafi ólögmætt ástand í þessum málum allt frá hausti 2012, eða í meira en þrjú ár. Útboðum Ríkiskaupa á flugmiðum hefur hins vegar ítrekað verið frestað.
Í fréttatilkynningu frá WOW vegna smyrsl-afhendingarinnar segir að þótt slegið hafi verið á létta strengi sé um háalvarlegt mál að ræða. „WOW air vildi minna opinbera aðila á að fara vel með skattpeninga landsmanna og ákvað því að bjóða þeim sem stýra innkaupunum verðbólgueyðandi áminningu.
Í apríl sl. féll úrskurður kærunefndar útboðsmála þar sem fjármála- og efnahagsráðuneytinu var gert að bjóða út innkaup ríkisins á flugmiðum til og frá Íslandi. Íslenska ríkið eyðir á ári hverju yfir 900 milljónum króna í ferðaþjónustu á milli landa og gera má ráð fyrir að töluverður hluti þessa kostnaðar sé vegna flugmiðakaupa. Ríkið hefur nær eingöngu keypt flugmiða af einu íslensku flugfélagi þó að samanburður og verðkannanir sýna að íslenska ríkið gæti náð fram umtalsverðum sparnaði ef leitað er eftir lægra verði hjá öðrum flugfélögum. Þrátt fyrir að úrskurður hafi fallið fyrir átta mánuðum síðan hefur útboð ekki farið fram. Nú hefur eingöngu verið talað um að flugferðir starfsmanna stjórnarráðsins verði boðnar út og þá á eftir að bjóða út flugferðir starfsmanna um 200 undirstofnana ríkisins.
WOW air þykir einnig varhugavert að starfsmenn ríkisins geti safnað punktum til persónulegra nota og að þau fríðindi séu ekki skattskyld.
WOW air bíður enn þá eftir að útboð fari fram til að lækka kostnað ríkisins og á sama tíma að vinna gegn verðbólgu. Flugfélagið hefur náð að lækka flugverð á sínum áfangastöðum um allt að 30% og vill að sjálfsögðu leggja sitt að mörkum til að lækka útgjöld ríksins um álíka prósentu“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air. Flugliðar WOW air munu svo einning dreifa verðbólgueyðandi undrasmyrslinu til þingmanna og forsvarsmanna Ríkiskaupa."