Donald Trump, sem sækist eftir því að verða forsetaframbjóðandi Repúblíkanaflokksins, hefur kallað eftir því að landamærum Bandaríkjanna verði að öllu leyti lokað fyrir múslimum. Þessi krafa Trump kemur í kjölfar árásanna í San Bernardino. The Guardian greinir frá.
Trump hefur oft látið umdeild ummæli falla um ákveðna kynþætti og innflytjendur síðan hann hóf sókn sína að því að hljóta útnefningu flokksins sem forsetaframbjóðandi hans í kosningunum sem fara fram á næsta ári. Þessi yfirlýsing er þó líkast til sú róttækasta hingað til.
Trump rökstuddi kröfuna með því að það væri svo mikið hatur á meðal múslima alls staðar í heiminum í garð Bandaríkjamanna að það yrði að loka landamærunum fyrir þeim þangað til að það verður betur hægt að greina og skilja vandamálið. „Landið okkar getur ekki fórnarlamb hræðilegra árása fólks sem trúir einungis á Jihad."
Kosningastjóri Trump sagði að bannið sem hann væri að leggja til ætti að ná til allra múslima, einnig þeirra sem eru að sækja um hæli í landinu og ferðamanna sem vilja heimsækja það. Trump er sem stendur sá frambjóðandi repúblikana sem mælist með mest fylgi. Hann þykir þó sömuleiðis vera sá frambjóðandi flokksins sem eigi minnsta möguleika á að vinna Hillary Clinton í slagnum um forsetaembættið, en Clinton leiðir í skoðanakönnunum um hver verður frambjóðandi Demókrataflokksins.
Ýmsir hafa þegar fordæmt ummælin. Á meðal þeirra er Martin O´Malley, sem sækist eftir því að verða forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins. Hann vændi Trump um fasisma í twitter-færslu.