Eyrir Invest, Arle Capital Partners og meðfjárfestar þeirra hafa gengið frá sölu á hollenska félaginu Stork til bandarísku iðnaðarsamsteypunnar Fluor Corporation, eins stærsta verktakafyrirtækis í heimi, fyrir 695 milljónir evra, eða rúmlega 98 milljarða króna. Áætlað er að salan verði að fullu frágengin að fullu á fyrri helmingi næsta árs að höfðu samráði og upplýsingagjöf til hagsmunasamtaka starfsmanna og verkalýðsfélaga í Hollandi og veittum heimildum frá samkeppnisyfirvöldum.
Stærstu eigendur Eyris Invest, sem átti 17 prósent hlut í Stork fyrir viðskiptin, eru feðgarnir Þórður Magnússon (20 prósent) og Árni Oddur Þorðarson (17 prósent). Auk þeirra á ríkisbankinn Landsbankinn 11 prósent hlut og Lífeyrissjóður Verzlunarmanna tíu prósent. Eyrir á einnig 29 prósent hlut í Marel, en virði þess hlutar hefur hækkað mikið undanfarin misseri. Auk þess á fjárfestingafélagið Eyri Sprota sem fjárfesta í sprotafyrirtækjum og styður þau til vaxtar. Eyrir Sprotar er starfrækt í samstarfi við Arion banka.
Eyrir keypti Stock B.V. ásamt meðfjárfestum sínum árið 2007. Þá rak samsteypan m.a. Fokker Technologies, Stork Tecnical Services og Stork Food Systems en kaup Marel hf. á því síðastnefnda voru meginástæða fyrir aðkomu Eyris Invest að verkefninu.
Fyrr á þessu ári var Fokker Technologies selt og með sölunni sem nú hefur samist um lýkur aðkomu Eyris að Stork. Í fréttatilkynningu frá Eyri vegna viðskiptanna segir: „Heildarverðmæti viðskiptanna endurspeglar góðan rekstur Stork en jafnframt aðstæður á markaði og nýlega lækkun á margföldurum samanburðarfélaga. Salan mun auka fjárhagslegan sveigjanleika Eyris. Það stefnir í gott ár fyrir Eyri en á árinu hefur félagið lokið tveimur verkefnum og gengi Marel hefur hækkað mikið."
Kaupandinn, Fluor Corporation er í 136 sæti á lista FORTUNE yfir 500 stærstu félög heims, starfsmenn eru 40.000 í öllum heimsálfum og tekjur félagsins á árinu 2014 námu 21,5 milljörðum bandaríkjadala.