Ungt fólk í dag er fyrsta kynslóðin sem þarf að upplifa loftslagsbreytingar og leysa úr vandanum, segir hinn 24 ára gamli Felix Antman Debels, einn sendifulltrúa frá Svíþjóð sem tekur þátt í loftslagsráðstefnunni í París. Ungliðar á Norðurlöndum héldu málþing um ungmenni á norðurslóðum og málefni upprunalegra íbúa á norðurslóðum í bás Norðurlandaráðs í kvöld. Í sendinefndum Noregs, Svíþjóðar og Finnlands eru ungliðar. Enginn ungmenni eru þátttakendur hér á vegum stjórnvalda á Íslandi eða Danmörku.
Debels telur mikilvægi þess að ungmenni taki þátt í umræðum um loftslagsmál tvískipt. „Fyrir það fyrsta þá þá erum við fyrsta kynslóðin sem mun finna fyrir loftlsagbreytingum af fyrir alvöru og fyrir okkur mun þetta hafa mikil áhrif á líf okkar. Ungmenni víða um heim búa á svæðum sem eru mjög viðkvæm fyrir loftslagbreytingum og þetta fólk mun finna verulega fyrir breytingunum,“ sagði hann í samtali við Kjarnann.
„Við erum einnig síðasta kynslóðin sem getur leyst þennan vanda,“ segir Debels. Samkvæmt áætlunum vísindamanna er talið að meðalhiti jarðar muni hækka um 2,7 gráður árið 2100 miðað við meðalhitann fyrir iðnbyltingu. Slík hækkun mun hafa gríðarlega alvarleg áhrif fyrir ótrúlegan fjölda fólks um allan heim. Debels segist aðallega hugsa til ungs fólks á smáeyjum, upprunalega íbúa á norðurslóðum og fátæka í Indlandi og Afríku. Þar munu loftslagsbreytingarnar hafa alvarlegustu áhrifin.
Gestir málþingsins sem Kjarninn ræddi við voru sammála því að mikilvægt sé fyrir ungmenni að láta í sér heyra. Þýskur hópur ungmenna sem hér eru staddir sem fulltrúar umhverfissinna sagði eftir málþingið að jafnvel þó ákvarðanir væru teknar af eldra fólki þá breyti það engu um hverjir það séu sem eigi raunverulega eftir að finna fyrir loftslagsbreytingum. „Það er fólk sem er ungt í dag.“
„Ég held að við höfum mun ítarlegri skilning á loftslagsbreytingum og við erum mun uppteknari af þessum málum. Þessi áhugi þarf að vera sjáanlegur og það þarf að heyrast í okkur í þessum viðræðum hér í París,“ sagði Debels að lokum.
Þrjú ungmenni frá Kanada og Svíþjóð fluttu erindi á málþinginu. Fredrik Hanertz, pólitískur ráðgjafi sænska umhverfisráðherrans, Josefina, Skerk, varaforseti samíska þingsins í Svíþjóð og Natan Obed, forseti Inuit Tapiriit Kanatami.