Samkvæmt breytingartillögu meirihluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016 verða framlög til embættis umboðsmanns Alþingis lækkuð um 13 milljónir króna frá því sem var fyrirhugað að myndi renna til embættisins á fjárlögum þegar þau voru lögð fram í haust. Í stað 202,5 milljóna króna fær umboðsmaður 189,5 milljónir króna. Framlög til umboðsmanns hækka þó á milli ára í krónum talið. Á árinu 2015 fékk embættið 174,5 milljónir króna samkvæmt fjárlögum. Framlag til umboðsmanns er því raunhækkun upp á um 12,5 milljónir króna, að teknu tilliti til verðbólgu.
Lækkunin er rökstudd af meirihluta fjárlaganefndar með því að embættið sé nú „embættið til húsa í Þórshamri við Templarasund sem er í eigu ríkisins en áður leigði embættið skrifstofuhúsnæði á almennum markaði og þá nam húsaleiga rúmum 13 m.kr. Þar sem embættið greiðir ekki lengur húsaleigu er lagt til að fjárheimild til hennar verði felld niður."
Stjórnarandstöðuflokkarnir, sem kynntu sameiginlega breytingartillögu sína við fjárlagafrumvarpið í gær, leggja til að umboðsmaður Alþingis fái 15 milljóna króna viðbótarframlag við það sem áður var áætlað til að embættið geti sinnt frumkvæðisathugunum.
Starfsmaður þingflokks Pírata, Aðalheiður Ámundadóttir, kallaði skert fjárframlög til umboðsmanns Alþingis aðför að embættinu að hálfu fjárveitingavaldsins í stöðuuppfærslu á Facebook í gærkvöldi.
Tryggvi Gunnarsson er umboðsmaður Alþingis. Hann var endurkjörinn í starfið í desember 2011 til fjögurra ára frá 1. janúar 2012. Skipanatími hans rennur því út um næstu áramót og kjósa þarf um endurkjör hans, eða nýjan umboðsmann, áður en að sá tími er liðinn. Tryggvi sat m.a. í þriggja manna rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið sem skilaði skýrslu sinni í apríl 2010.
Lekamálið, Fiskistofa og Seðlabankinn
Umboðsmaður Alþingis hefur verið töluvert í sviðsljósinu á þessu ári. Í janúar birti hann niðurstöðu frumkvæðisathugunar sinnar á samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, og Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, vegna rannsóknar lekamálsins svokallaða. Þar segir hann að ráðherrann, sem þá hafði þegar sagt af sér embættið, hafi gengið langt út fyrir valdsvið sitt í málinu. Hún hafi haft ítrekuð og mikil afskipti af rannsókn lekamálsins, sem snérist um leka þáverandi aðstoðarmanns hennar, Gísla Freys Valdórssonar, á upplýsingum um um hælisleitendur til valinna fjölmiðla. Gísli Freyr hlaut átta mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir lekann í nóvember 2014.
Í apríl birti umboðsmaður álit í tilefni af kvörtun starfsmanna Fiskistofu til embættisins vegna ákvörðunar Sigurðar Inga Jóhanssonar sjávarútvegsráðherra um að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar. Í áliti umboðsmanns segir að yfirlýsingar og bréf Sigurðar Inga til starfsmanna Fiskistofu vegna flutningsins hafi ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.
Í byrjun sendi umboðsmaður Alþingis svo bréf til Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, bankaráði Seðlabanka Íslands, Má Guðmundssyni seðlabankastjóra og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis vegna athugunar sem hann hafði unnið á síðustu árum vegna atriða tengdum athugunum og rannsóknum Seðlabanka Íslands vegna gruns um brot á reglum um gjaldeyrishöft. Í bréfi hans kemur m.a. fram að Seðlabanki Íslands hafði ekki skýra lagaheimild til að flytja verkefni við umsýslu og sölu eigna til einkahlutafélags í eigu bankans. Umrætt einkahlutafélag, Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ), hefur fengið til sín allar þær eignir og kröfur sem Seðlabankanum hefur áskotnast vegna hrunsins. Um er að ræða eignir, meðal annars hlutir í fyrirtækjum og fasteignir, og kröfur upp á hundruði milljarða króna. ESÍ hefur á undanförnum árum selt margar þeirra eigna sem félaginu áskotnaðist. Í bréfinu gagnrýnir umboðsmaður einnig framkvæmd gjaldeyrisreglna seðlabankans.
Bankaráð Seðlabanka Íslands ákvað á grundvelli þeirrar niðurstöður að láta gera athugun á þessum málum.
Segir kerfið verja sig sjálf
Í síðustu viku var greint frá því að17 eftirlitsstofnanir ríkisins fái um 13.134 milljónir króna á næsta ári úr ríkissjóði. Það er 5,8 prósent meira en þær fengu á þessu ári, þegar 12.409 milljónir króna runnu til þeirra. Alls aukast útgjöld til eftirlitsstofnana því um 725 milljónir króna á næsta ári. Umboðsmaður Alþingis er á meðal þessarra eftirlitsstofnanna.
Guðlaug Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður fjárlaganefndar, sagði af þessu tilefni við Morgunblaðið að ríkisstofnanir sporni við sparnaði með öllum tiltækum ráðum. „Það gengur erfiðlega að spara hjá stofnunum. Kerfið ver sig með öllum ráðum. Það skortir skilning á mikilvægi þess að gæta aðhalds í ríkisfjármálum og hafa í þessu tilfelli einfalt og skilvirkt eftirlitskerfi. Þetta er útlagður kostnaður skattgreiðenda og það er líka í þessu fólginn mikill óbeinn kostnaður fyrir atvinnulífið og fólkið í landinu, eins og allir vita... Fjárlögin eru illskiljanleg og það er iðulega verið að ræða smærri mál í stað þess að ræða stóru málin.“