Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir Ísland eiga möguleika á því að aðstoða Evrópuríki við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að tengja raforkukerfi Íslands við meginlandið með sæstreng. Hörður flutti erindi í bás Norðurlandaráðs á loftslagsráðstefnunni í París á þriðjudag.
Spurður hvort Ísland geti leyst loftslagsvanda Evrópu: „Við getum svo sannarlega ekki leyst loftslagsvanda Evrópu frekar en aðrir einstaklingar en við getum haft mikil áhrif sem þjóð,“ svarar Hörður. „Það getur trúlega engin önnur þjóð haft jafn mikil áhrif. Það tengist því að við höfum auðlindir sem aðrar þjóðir hafa ekki.“
„Það er líka mikilvægt, með verkefni eins og sæstreng, þá gætu áhrifin verið að við myndum leysa af hólmi kolaorkuver í Bretlandi. Þá værum við að gera meira en að kolefnisjafna allan útblástur á Íslandi með þessu eina verkefni,“ segir Hörður.
Norðurlöndin hafa átt í samstarfi með raforku í 100 ár því árið 1915 var fyrsti raforkustrengurinn lagður milli Svíþjóðar og Danmerkur. Í dag er þetta samstarf Norðurlandanna talið vera með því áhrifaríkasta í heiminum.
„Það má segja að við getum gert þetta á tvennan hátt. Annars vegar með því að styðja við endurnýjanlega orkuvinnslu í Evrópu, eins og til dæmis Norðmenn hafa gert hjá Dönum þar sem verið er að jafna það út þegar vindurinn blæs ekki og sólin skín ekki. Við gætum gert það með Bretunum og leyst það vandamálið við raforku; það er ekki hægt að geyma raforku. Á meðan vatnsorkan er fullkomið batterí. Við gætum því orðið, eins og Norðmenn hafa stundum sagt, grænt batterí og skapað mikil verðmæti þannig og stutt vel við loftslagsmálin.“
Hlusta má á samtalið við Hörð í þættinum Þukl í Hlaðvarpi Kjarnans.