Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður Kaupþings, hefur verið sviptur rétti til þess að bera fálkaorðuna, sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sæmdi hann 1. janúar 2007. Þetta gerði Ólafur Ragnar, sem er stórmeistari íslensku fálkaorðunnar, á grundvelli 13. greinar forsetabréfs um hina íslensku fálkaorðu frá 31. desember 2005. Þar stendurað stórmeistari geti, að ráði orðunefndar, „svipt hvern þann, sem hlotið hefur orðuna en síðar gerst sekur um misferli, rétti til að bera hana.“ Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.
Sigurður hlaut fjögurra ára fangelsisdóm í Al Thani-málinu svokallaða í Hæstarétti í febrúar síðastliðnum. Hann var einnig sakfelldur í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings í héraði fyrr á þessu ári og hlaut þar eins árs viðbótarrefsingu. Nú stendur yfir aðalmeðferð í svokölluðu CLN-máli fyrir héraðsdómi. Þar er Sigurður einnig á meðal ákærðra. Hann afplánar nú dóm á Kvíabryggju.
Guðni Ágústsson, formaður orðunefndar, segir við Morgunblaðið að nefndin hafi lagt sviptinguna til við forsetann. „Eftir að við höfðum kynnt okkur hvernig með mál sem þetta er farið á Norðurlöndum, komumst við í orðunefnd að þeirri niðurstöðu að við vildum svipta Sigurð réttinum til þess að bera orðuna og lögðum til við forseta Íslands að hann svipti hann réttinum til þess að bera hana.“ Þetta hafi gerst fyrir nokkrum vikum síðan. Hann telji þetta jafngilda því að svipta Sigurð orðunni.
Sigurður var sæmdur heiðursmerki fálkaorðunnar „fyrir forystu í útrás íslenskrar fjármálastarfsemi“ eins og segir í umsögn á vef Stjórnartíðinda.
Í fyrsta sinn sem nokkur er sviptur réttinum
Guðni segir við RÚV að þetta hafi aldrei verið gert áður - að maður hafi verið sviptur réttinum til að bera fálkaorðuna. Hann upplýsti að Sigurði hafi verið tilkynnt um þessa ákvörðun nefndarinnar bréfleiðis.
Eining var innan orðunefndar um að svipta Sigurð réttinum til að bera fálkaorðuna. Auk Guðna sitja Ellert B. Schram, fyrrverandi þingmaður, Rakel Olsen, framkvæmdastjóri, Ólafur Egilsson, fyrrverandi sendiherra, Þórunn Sigurðardóttir, leikstjóri, og Örnólfur Thorsson, orðuritari í nefndinni. Guðni segir að þetta sé það sem orðunefndin geti gert, svipt menn réttinum til að bera fálkaorðuna. Engar reglur segi til um að menn þurfi í framhaldinu að skila orðunni strax.