Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Vextir á sjö daga bundnum innlánum, svokallaðir stýrivextir, verða því áfram 5,75 prósent. Í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar segir að sterkari króna og hagstæðari alþjóðleg verðlagsþróun hafa veitt svigrúm til að hækka vexti hægar en áður var talið nauðsynlegt.
Hagstofa Íslands birti í gær bráðabirgðatölur sínar um hagvöxt á fyrstu níu mánuðum ársins 2015. Samkvæmt þeim er hann 4,5 prósent og er að mestu drifinn áfram af aukinni einkaneyslu, en hún jókst um 4,4 prósent á tímabilinu. Útflutningur jókst um 7,4 prósent en innflutningur nokkuð meira, eða um 10,9 prósent. Hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi var 2,6 prósent, sem er nokkuð undir væntingum þeirra sem spá til um slíkan.
Verðbólguhorfur hafa einnig batnað, en verðbólga mældist tvö prósent í nóvember. Hún hefur aukist minna en spár gerðu ráð fyrir vegnaþess að lækkun alþjóðlegs hrávöru- og olíuverðs og hækkun á gengi krónunnar hafa vegið á móti innlendum verðhækkunum.
Bindiskylda lækkuð
Peningastefnunefndin ákvað einnig að lækka bindiskyldu sína um 1,5 prósentustig, úr fjórum prósentum í 2,5 prósent. Stutt er síðan að bindiskyldan var hækkuð úr tveimur prósentum í fjögur prósent. Það gerðist í september síðastliðnum í því skyni að auðvelda Seðlabankanum stýringu á lausu fé bankakerfisins í tengslum við gjaldeyriskaup hans og losun fjármagnshafta. Bindiskyldan mun lækka á ný frá og með næsta bindiskyldutímabili, sem hefst 21. desember.
Í rökstuðningi sínum fyrir ákvörðuninni segir peningastefnunefndin að þetta sé gert til að milda lausafjáráhrif afhendingar slitabúa gömlu bankanna á stöðugleikaframlögum. Þegar fyrirhugað útboð svokallaðra aflandskróna, sem er nokkurs konar lokahnykkur í áætlun stjórnvalda um losun hafta, fer fram snemma á næsta ári er áformað að bindiskylda verði lækkuð á ný niður í tvö prósent.