Það verður að vera hægt að vinna með samninginn sem nú er verið að undirbúa, segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands í samtali við Kjarnann í París. Þessa dagana er unnið að lokadrögum lagalega bindandi samnings allra ríkja heims um loftslagsmál á loftslagsráðstefnunni COP21 í París.
„Ég held að það sé góð von um samning,“ segir Árni en bendir á að nú sé bara spurning um hversu góðan samning verður hægt að gera. „Spurningin er bara hvað hann verður sterkur, skýr og hversu auðvelt verður að vinna með hann eftir París. Þá byrjar vinnan við að koma þessum samningi í framvkæmd. Sú vinna skiptir alveg gríðarlegu máli.“
Kjarninn er í París að fylgjast með ráðstefnunni. Hægt er að lesa fréttastrauminn hér.
Boðað hefur verið til fundar í aðalnefndinni hér í París; Comité de Paris, þar sem gert er ráð fyrir að nýjum drögum að samningi verið útdeilt til sendinefnda þjóðanna 195 sem hér eru komin til að ræða loftslagsbreytingarnar og aðgerðir við þeim. Árni er viss um að sama málið muni hægja á viðræðunum hér í París og stöðvaði viðræðurnar í Kaupmannahöfn fyrir sex árum.
„Stærsta málið hefur verið alla tíð hvernig iðnríkin ætla að aðstoða þróunarríki til að taka sig á í loftslagsmálum, svo að þróunarríki geti byggt upp endurnýjanlegt orkukerfi og ekki fara sömuleið og iðnríkin fóru með kolahagkerfi. Það held ég að sé erfiðasta málið,“ segir Árni.
Meðal ráðstefnugesta í París hefur andrúmsloftið verið litað jákvæðni og sannfæringu um að hægt verði að komast að samkomulagi í lok vikunnar. Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindarráðherra, er hér í París sem fullrúi Íslands. Hún lét hafa eftir sér á vef ráðuneytisins í gærkvöldi að hún væri vongóð. „Tilfinningin er sú að nú þokist hratt í samkomulagsátt en björninn er þó ekki unninn. Þó búið sé að landa mikilvægum atriðum er varða einstaka þætti samningsins á eftir að tengja þá saman og búa til heildarramma utan um nýtt samkomulag. Næstu sólarhringar fara í að sníða þennan ramma og ég er vongóð um að það takist,“ er haft eftir ráðherra.
Árni Finnsson segir það hafa komið svolítið á óvart hversu mikinn stuðning var að finna hér í París um að stefna skyldi að hlýnun innan við 1,5 gráðu, í stað tveggja. „[…] ekki eins og í Kaupmannahöfn þar sem talað var um að vera innan við tvær. Það virðist vera niðurstaðan hér að tvær gráður sé bara allt of mikil áhætta. Ég heyrði í vísindamanni sem sagði að það þýði í raun og veru 66 prósent líkindi á að okkur takist að halda okkur innan við 2 gráður. Þá eru eftir 34 prósent sem gætu farið hina leiðina. Hver mundi stíga upp í flugvél ef það væru 34 prósent líkur á að hún fari niður?“ spyr Árni.
Hugi Ólafsson, samningamaður Íslands, sagðist í samtali við Kjarnann búast við því að framkvæmd viðræðna verði með sama sniði og í gærkvöldi. „Ég á von á því að það verði líkt ferli. Ég held að það komi nýr og eymaðari texti, búið að fækka álitamálunum og svo gefi hann [Laurent Fabius, forseti COP21] ríkjum og ríkjahópum tækifæri til að segja sína skoðun.“