Fleiri konur hafa náð að fullfjármagna verkefni í gegnum hópfjármögnunarsíðuna Karolina Fund en karlar. Alls eru 51 prósent þeirra verkefna sem hafa verið fullfjármögnuð leidd af konum en 49 prósent af körlum. Karlar hafa þó safnað hærri upphæð að meðaltali en konur, en þeir setja líka setja sér líka hærri markmið í söfnunum sínum.
Þetta kemur fram í tölum sem Karolina Fund hefur látið Kjarnanum í té. Um er að ræða öll þau verkefni sem hafa reynt að fjármagna sig í gegnum vefinn frá því að hann var settur í loftið í október 2012. Af þeim 229 verkefnum sem hafa reynt að hópfjármagna sig á frá byrjun og þar til í lok síðustu viku í gegnum Karolina Fund hefur 175 tekist ætlunarverkið, eða 76 prósent. Því ná þrjú af hverjum fjórum verkefnum sem sett eru af stað á Karolina Fund söfnunarmarkmiði sínu og verða að veruleika.
Frá því að sú tölfræði var tekin saman hefur fjármögnuðum verkefnum fjölgað enn meira, og eru nú 188 talsins. Alls hafa 19.323 manns heitið samtals 1.036.472 evrum, um 147 milljónum króna á gengi dagsins í dag, á verkefni sem birst hafa á Karolinafund.com.
Tónlist, bækur kvikmyndir og afþreying
Karolina fund var stofnað árið 2012. Fyrirtækið er vettvangur þar sem hægt er að setja inn hugmynd, finna hæfileika til að starfa að hugmyndinni og ná í fjármagn til þess að gera hana að veruleika. Fjármögnunin gengur þannig fyrir sig að sett eru markmið um hversu mikið fjármagn hvert verkefni þarf að ná til að fjármagna sig og áhugasamir geta síðan heitið á verkefnin. Ef markmiðin nást greiða þeir sem hétu á verkefnin og í flestum tilfellum fá þeir eitthvað í staðinn, t.d. ef verkefnið er bókaskrif þá fá þeir eintak af bókinni. Þetta kallast hópfjármögnun og er stundað víða um heim, til dæmis á þekktum síðum eins og Indigogo og Kickstarter.
Verkefnin sem hafa náð að fjármagna sig með þessum hætti eru allskonar. Af fullfjármögnuðum verkefnum eru 35 prósent tónlistarverkefni, 25 prósent bækur eða tímarit, 13 prósent listir og afþreying og 11 prósent kvikmyndir.
Kjarninn hefur lengi verið í samstarfi við Karolina fund og birt verkefni vikunnar á hverjum laugardegi.