Fyrsta spurningin sem vaknaði hjá mér við lestur Hrólfs sögu Iðunnar Steinsdóttur var „hverjum er þessi bók ætluð?“ Að sumu leyti fráleit spurning, enda bækur skrifaðar af þörf þess sem skrifar og í þeim skilningi einkum ætlaðar þeim sjálfum.
Það gæti sem best átt sérlega vel við þessa bók, þar sem Iðunn sækir efni og innblástur í lífshlaup langafa síns, Hrólfs Hrólfssonar, (1861–1893), dapurleg örlög hans og þátt hinnar harðýðgislegu meðferðar á fátæku fólki í þeim. Meðferð sem tíðkaðist hér öldum saman og kynslóð Hrólfs var einna síðust til að upplifa í sinni tærustu grimmdarmynd. Að skilja og þekkja forfeður sína og lífsskilyrði þeirra er okkur öllum skiljanleg þörf.
En samt. Þessi spurning vaknaði. Kannski af þeirri galgopalegu staðhæfingu á bókarkápu að „Mörgum muni koma á óvart að lesa um nöturleg kjör almennings fyrir rúmri öld“. Nú er enginn hörgull á lesefni, ævisögulegs, skáldskaparkyns og fræðlegs, um niðursetningakerfið og fólskulega beitingu þess. Það getur ekki verið að útgefendur Hrólfs sögu haldi í alvörunni að hér sé velt við óhögguðum steini. Þess vegna m.a. fékk ég þá sömu tilfinningu og ég fékk um árið þegar Ingibjörg Reynisdóttir sló öll sölumet með bók sinni um Gísla á Uppsölum: nefnilega að þessi stutta og auðlesna ævisaga væri ekki síst ætluð ungum lesendum. Nokkurskonar „Young Adult“ þjóðlegur fróðleikur.
Sem er í sjálfu sér göfugt viðfangsefni, þó gott hefði verið að vita ef það var erindið. Og svo öllu réttlætis sé gætt: Hrólfs saga er umtalsvert betri bók en Gísli á Uppsölum.
Iðunn kafar ekki djúpt, hvorki í sálarlíf né samfélag. En það sem hún gerir, gerir hún vel. Hún lýsir daglegu lífi, án þess að mála erfiði eða óþægindi sérlega sterkum litum. Meira að segja hungrið, þetta leiðarstef í lífi Hrólfs samkvæmt bókinni, verður aldrei áþreifanlegt þó mikið sé um það talað. Sjálfur er Hrólfur skýr persóna þó ef til vill geri vilji höfundar til að hafa hann sem geðþekkastan hann full-litlausan. Gaman samt hvað þeir félagarnir hann og Tómas eru útsjónarsamir með að fara bak við hin illu og matsáru Bringuhjón.
Hrólfur verður samt aldrei alveg nógu þrívíður í mynd höfundarins. Kannski hefði einfaldlega þurft meira pláss, fleiri orð. Bókin er stutt og samtöl óvenju stór hluti textans. Til að setja okkur inn í aðstæður Hrólfs og hið framandi samfélag sem hann lifir í hefði þurft meiri lýsingar og leiðsögn. Mögulega er Iðunn líka of upptekin af að deila með okkur allskyns tíðindum af því sem er fréttnæmt á sögutímanum, leggja þau í munn förufólks og hins ónytjunglega stjúpföður Hrólfs. Veit ekki alveg hvaða gagn þessir molar gera, allavega ekki í þeim mæli sem þeir eru hér, á kostnað lýsingar á söguhetjunni, þroska hans og mótlæti.
Samtölin gera samt sitt gagn enda Iðunn þjálfað leikskáld. Minnisstæðastur er fundur Hrólfs og eldri systur hennar eftir nokkurra ára aðskilnað, þar sem Iðunni tekst í örfáum „replikkum“ að gefa stúlkunni persónueinkenni – dómhörku og einsýni sprottið af illum lífskjörum. Með matinn sem helsta umræðuefni að sjálfsögðu.
Eins og allar bækur um lífskjör hinna lægst settu á Íslandi fyrri tiðar þá skilur Hrólfs saga lesandann eftir með sorg í hjarta og gremju yfir vondu kerfi og lítilsigldu fólki sem nýtir sér það til að vega sig upp á kostnað þeirra sem minna mega sín. Lesandinn skilur vel þörf höfundar fyrir að reisa hinum vandaða og hæfileikaríka forföður sínum fallegan minnisvarða. Það gerir Iðunn, en líklega á kostnað þess að skrifa fyllri persónulýsingu og sleppa að fullu fram af sér skáldskaparbeislinu.