61,4 prósent landsmanna treysta ekki Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum til að selja hluti ríkisins í þeim bönkum sem það á. Einungis 21,5 prósent treysta stjórnarflokkunum vel fyrir verkefninu en 17,2 prósent svara hvorki né. Þetta kemur fram í könnun sem Gallup hefur gert fyrir þingflokk Pírata og sagt er frá í Fréttablaðinu í dag. Þar var spurt: „ „Hversu vel eða illa treystir þú núverandi ríkisstjórn til að sjá um sölu á hlut ríkisins í bönkum?“
Samkvæmt þessu treystir einungis um fimmti hver Íslendingur flokkunum tveimur til að selja þá eignarhluti í bönkum sem ríkið heldur, eða mun halda, á. Háskólamenntaðir treysta þeim minnst ásamt íbúum höfuðborgarsvæðisins og yngra fólki, í aldurshópnum 25 til 34 ára.
Könnunin var framkvæmd af Gallup fyrir þingflokk Pírata, dagana 3. til 14. desember. 1.433 voru í úrtaki Gallup, 881 svaraði könnuninni eða 61,5 prósent.
Einkavæðing banka framundan
Ríkisstjórnin hefur þegar gert það ljóst að til standi að selja 30 prósent hlut í Landsbankanum á árinu 2016. Samhliða stendur til að skrá Landsbankann á markað.
Þá hefur Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lýst því yfir að það sé ekki heillavænlegt að ríkið eigið Íslandsbanka, sem ríkið fær eignast að fullu eftir að stöðugleikaframlag Glitnis verður greitt, til lengri tíma. Það má því telja nokkuð öruggt að hann verði settur í söluferli í náinni framtíð.
Slagur er þegar hafinn um Arion banka, þrátt fyrir að Kaupþing, eigandi 87 prósent hlutar í honum, hafi þrjú ár til að selja hann. Ríkið á 13 prósent hlut í þeim banka.
Óljóst hver myndi selja bankana
Ekki hefur legið alveg fyrir hver myndi fara með sölu bankanna. Í apríl var lagt fram frumvarp sem gekk út á að færa verkefni Bankasýslu ríkisins til fjármála- og efnahagsráðuneytis. Ráðherra þess átti í kjölfarið að setja sérstaka eigendastefnu ríkisins sem tekur til þeirra fjármálafyrirtækja sem ríkið á eignarhluti í, skipa þriggja manna ráðgjafanefnd, án tilnefningar, til að veita honum ráðgjöf um meðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum og undirbúa sölu og sölumeðferð þeirra hluta. Lögin áttu, samkvæmt frumvarpi, að taka gildi í byrjun næsta árs.
Í fjárlagafrumvarpi 2016 átti bankasýslan ekki að fá krónu. Eitthvað mikið hefur hins vegar breyst í millitíðinni því samkvæmt nýbirtum breytingartillögum við fjárlagafrumvarp næsta árs fær hún þrefalt hærri upphæð en á fjárlögum ársins 2015 og á að setja sig í stellingar til að taka á móti Íslandsbanka, þegar kröfuhafar föllnu bankanna afhenda ríkinu hann.
Því stefnir allt í að hlutur ríkisins í bönkunum verði seldur í gegnum Bankasýslu ríkisins.
Sporin hræða
Nýtt einkavæðingarferli banka er því sannarlega í bígerð. Síðast þegar ríkið réðst í slíka einkavæðingaraðgerð, á árunum 2002 og 2003, gekk það ekki betur en svo að bankarnir sem það seldi uxu á örfáum árum upp í að verða margfalt stærri en þjóðarframleiðsla Íslendinga og hrundu svo eins og spilaborg á örfáum dögum haustið 2008 með afdrifamiklum afleiðingum fyrir íslenska þjóð.
Sú einkavæðing hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir spillingu, ógegnsæi og ófaglegheit, enda reynsla þeirra sem fengu að kaupa bankana þá af fjármálastarfsemi lítil sem engin.