Heildarkostnaður við rekstur og uppgjör slitabúa Glitnis, Landsbankans og Kaupþings mun nema um 135 milljörðum króna, samkvæmt tölum sem ViðskiptaMogginn hefur tekið saman. Gert er ráð fyrir að kostnaðurinn við slit Glitnis geti numið 41,3 milljörðum króna, við slit Landsbankans 49,1 milljarði króna og Kaupþings 44,6 milljörðum króna. Dýrasta árið var árið 2009 hjá Landsbankanum, sem kostaði slitabúið alls 12 milljarða króna.
Í samantekt ViðskiptaMoggans er tekin saman sá kostnaður sem fallið hefur til vegna slita búanna þriggja, og liggur fyrir tilgreindur í uppgjörum, fram á mitt þetta ár. Auk þess er kostnaður þeirra frá 1. júlí síðastliðinn áætlaður út frá kostnaði á fyrri helmingi þessa árs. Sérstaklega er tekið fram að ekki sé loku fyrir það skotið að kostnaður við lokauppgjör búanna verði hærri en áætlað er.
Langstærsti hluti kostnaðarins fellur til vegna aðkeyptrar ráðgjafaþjónustu, jafnt innlendrar sem erlendrar.
Verið að klára slitin
Senn líður að því að slitum á bönkunum þremur ljúki. Búið er að fá samþykki kröfuhafa fyrir nauðasamningi þeirra allra. Það var gert á fundum sem haldnir voru síðari hluta nóvembermánaðar og nánast allir kröfuhafar allra bankanna þriggja sem greiddu atkvæði samþykktu þá.
Næsta skref var að leggja nauðasamninginn fyrir héraðsdóm Reykjavíkur til staðfestingar. Glitnir lagði sinn samning fram til samþykktar 4. desember síðastliðinn og fimm dögum síðar var dómstóllinn búin að samþykkja nauðasamningsfrumvarp bankans. Síðdegis á mánudag rann síðan út kærufrestur vegna hans.
Nauðasamningur Kaupþings var tekinn fyrir í héraðsdómi á þriðjudag í síðustu viku en málinu var þá frestað. Ástæðan var sú að það vantaði íslenska þýðingu á skjölum sem Kaupþing lagði fram. Sú viðbótarþýðing var lögð fram daginn eftir þegar málið var tekið aftur fyrir. Frumvarpið var svo samþykkt fyrr í þessari viku. Landsbankinn lagði sitt nauðasamningsfrumvarp fram fyrir héraðsdóm til samþykktar 15. desember. Ekki er búist við öðru en að nauðasamningsfrumvarp Landsbankans verði samþykkt á nokkuð skömmum tíma, líkt og gerðist hjá Glitni og Kaupþingi.
Áður en að hægt verður að klára nauðasamning slitabúanna verða þau að upplýsa bandaríska dómstóla um að slitameðferð sé lokið og að greiðslur til kröfuhafa séu á næsta leyti. Glitnir gerði það fyrst íslenska slitabúanna á þriðjudag og hin tvö slitabúin munu gera það í kjölfarið.
Stöðugleikaframlögin greitt út fyrst
Þá vantar endanlega undanþágu Seðlabanka Íslands frá gjaldeyrishöftum,sem hann hefur þegar sagt að hann muni veita, til að hægt verði að heimila útgreiðslur úr slitabúunum.
Stöðugleikaframlögin verða greidd áður en að kröfuhöfum verður greitt út. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi vegna stýrivaxtarákvörðunar Seðlabanka Íslands í síðustu viku að greiðsla á stöðugleikaframlögum gæti átt sér stað fyrir áramót.
Í kjölfarið verða slitastjórnirnar lagðar niður og stjórnir sem helstu kröfuhafar hafa valið taka við stjórn endurskipulagðra eignarhaldsfélaga sem munu halda á þeim eignum sem slitabúin eiga enn.