Stjórn Fáfnis Offshore hefur sagt Steingrími Erlingssyni, forstjóra og stofnanda fyrirtækisins, upp störfum. Þetta gerðist í vikunni. Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður Fáfnis Offshore, staðfestir þetta við Fréttablaðið en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um ástæðu uppsagnarinnar. Heimildir Kjarnans herma að miklir samstarfserfiðleikar hafi verið milli stjórnar Fáfnis Offshore og Steingríms undanfarið.
Fáfnir Offshore sérhæfir sig í þjónustu við olíu- og gasborpalla auk annarra verkefna á norðlægum slóðum. Steingrímur, sem á enn 21 prósent hlut í fyrirtækinu, stofnaði það árið 2012.
Kjarninn greindi frá því í byrjun desember að afhending á Fáfni Viking, skipi í eigu Fáfnis Offshore, hafi verið frestað í annað sinn. Skipið átti að afhendast í mars á næsta ári en samkvæmt nýju samkomulagi milli Fáfnis og norsku skipasmíðastöðvarinnar Hayvard Ship Technologies AS, sem skrifað var undir í byrjun þessa mánaðar, mun afhending þess frestast fram til júnímánaðar 2017. Á meðal þeirra sem hafa fjárfest háum fjárhæðum í Fáfni Offshore eru íslenskir lífeyrissjóðir.
Fáfnir Offshore á einnig skipið Polarsyssel, sem var kostaði yfir fimm milljarða króna og er dýrasta skip Íslandssögunnar. Það skip var afhent haustið 2014 og er með þjónustusamning við sýsluembættið á Svalbarða um birgðaflutninga og öryggiseftirlit. Upphaflega gekk sá samningur út á að sýslumannsembættið hefði skipið til umráða að lágmarki í 180 daga á ári, eða sex mánuði. Hina sex mánuði ársins stóð til að nota skipið í verkefni tengdum olíu- og gasiðnaðinum í Norðursjó. Þau verkefni hafa hins vegar horfið undanfarið ár, samhliða hinni miklu lækkum á heimsmarkaðsverði á olíu.
Í október síðastliðnum var því gerður nýr samningur við sýslumannsembættið á Svalbarða. Hann tryggir Polarsyssel verkefni í níu mánuði á ári. Þessi samningur er eina verkefni Fáfnis Offshore sem stendur.
Íslenskir lífeyrissjóðir eiga mikið undir
Í nóvember 2014 var Steingrímur viðmælandi á fræðslufundi VÍB, sem er hluti af Íslandsbanka. Þar sagði hann meðal annars að Fáfnir Offshore stefndi að því að vera með 3-4 skip í rekstri á næstu árum.
Skömmu eftir að VÍB tók viðtal við Steingrím, nánar tiltekið í desember 2014, var tilkynnt að Akur fjárfestingar, framtakssjóður í rekstri Íslandssjóða, sjóðsstýringarfyrirtækis Íslandsbanka, hefði keypt 30 prósent hlut í Fáfni Offshore fyrir 1.260 milljónir króna. Helstu eigendur sjóðsins eru lífeyrissjóðir, Íslandsbanki og VÍS.
Áður höfðu ýmsir fjárfestar komið að félaginu, meðal annars stjórnarformaðurinn Bjarni Ármansson, fyrrum bankastjóri Glitnis, í gegnum fjárfestingafélag sitt Sjávarsýn. Þá á félag tengt Havyard ship skipasmíðaverksmiðjunni, sem smíðar bæði skip Fáfnis Offshore, hlut í félaginu. Það á Horn II, framtakssjóður í rekstri Landsbréfa, sjóðsstýringarfyrirtækis Landsbankans, líka. Helstu fjárfestarnir í Horni II eru íslenskir lífeyrissjóðir. Horn II á í dag 23,1 prósent hlut í Fáfni Offshore.
Tugum skipa hefur verið lagt
Þjónustmarkaður fyrir olíuiðnaðinn í Norðursjó hefur hrunið undanfarið rúmt ár. Tugum skipa sem gerðu út á þennan markað, sem alþjóðlega nefnist „Offshore“-markaðurinn, hefur verið lagt vegna þess að það eru ekki verkefni til staðar fyrir þau og oliuborpöllum í Norðursjó hefur fækkað mikið. Ástæðan er sú að olíuverð hefur lækkað svo mikið- það hefur lækkað úr 116 dölum í 40 dali á einu og hálfu ári – að það svarar ekki kostnaði að vinna olíuna úr þeim lindum sem þar er að finna.
Offshore-borpöllum í Norður-Ameríku hefur einnig fækkað skarpt á þessu tímabili. Frá nóvember 2014 og til loka sama mánaðar í ár fækkaði þeim úr 54 í 30.
Fáfnir Offshore tapaði 3,4 milljónum norskra króna á síðasta ári, eða um 52 milljónum íslenskra króna á gengi dagsins í dag. Velta félagsins í fyrra var 33,2 milljónir norskra króna, eða rúmlega hálfur milljarður íslenskra króna. Þetta kemur fram í ársreikningi Fáfnis Offshore fyrir árið 2014.