Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, lagði í dag fram á Alþingi skýrslu um hagræn áhrif kvikmyndagerðar á Íslandi með sérstakri áherslu á svæðisbundin áhrif. Skýrslan var unnin af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og sýnir meðal annars fram á að markmið endurgreiðslukerfisins hafa náðst, en þau eru t.d. að framleiðslan sé til þess fallin að koma íslenskri menningu á framfæri, kynna náttúru landsins of stuðla að aukinni reynslu og þekkingu þeirra sem að framleiðslunni standa.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneyti Ragnheiðar Elínar.
„Skýrslan sýnir að kvikmyndagerð á Íslandi hefur vaxið og dafnað, umfang hennar hefur aukist hvort sem litið er til kostnaðar eða virðisauka, þekking hefur aukist og erlendum verkefnum fjölgað mjög. Við það bætist að íslenska endurgreiðslukerfið er til þess að gera einfalt og gagnsætt,“ segir í tilkynningunni.
Virðisauki endurgreiðsluverkefna fyrir þjóðfélagið í heild var tæpur milljarður króna árið 2013, en það ár var lagt til grundvallar við vinnuna þar sem það var síðasta heila árið sem öll gögn lágu fyrir.
Torveldara reyndist að meta svæðisbundin áhrif kvikmyndagerðar á Íslandi en ljóst er að hin efnahagslegu áhrif eru sterkust á höfuðborgarsvæðinu. „Það kemur aðallega til af því að flest fyrirtæki, verktakar og starfsmenn sem starfa í greininni eru skráð á því svæði. Tímabundin áhrif á hverju svæði eru þó töluverð og eru kvikmyndaverkefni eftirsótt um allt land,“ segir í tilkynningu frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu.
Ragnheiður Elín Árnadóttir segir það „ánægjulegt að leggja þessa skýrslu fram á Alþingi á árinu 2015 þegar velgengni íslenskra kvikmynda hefur náð nýjum hæðum. Kvikmyndir eins og Hrútar, Fúsi, Hross í oss og Þrestir hafa hlotið margvísleg verðlaun á erlendum vettvangi. Þá fór hluti af eftirvinnslu stórmyndarinnar Baltasars Kormáls, Everest, fram hér á landi og hefur sú vinna hlotið mikla athygli. Þar er eftir miklu að slægjast fyrir íslensk fyrirtæki og mikilvægt að leita leiða til að draga að fleiri slík verkefni.“
Ragnheiður Elín segir skýrsluna undirstrika að íslensk kvikmyndagerð er orðin alþjóðlega samkeppnishæf. Þar hefur margt komið til og augljóst að tilkoma endurgreiðslukerfisins á sínum tíma markaði þáttaskil. Það styður ekki einungis við innlenda kvikmyndagerð heldur gerði Ísland að raunverulegum valkosti fyrir erlenda kvikmyndaframleiðendur, að því er skýrslan leiðir fram.
Gildistími núgildandi laga um endurgreiðslukerfi rennur út í lok árs 2016 og hefur verið ákveðið að framlengja lögin og betrumbæta. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra mun leggja fram frumvarp þess efnis á komandi vorþingi.