Einkahlutafélag í eigu Hrannars Péturssonar, sem íhugar nú forsetaframboð fékk tæpar níu milljónir króna greiddar frá forsætisráðuneytinu fyrir ráðgjöf á sviði upplýsingamála. Hrannar var ráðinn til ráðuneytisins í desember 2014 til að stýra heildarendurskoðun á stefnu Stjórnarráðsins í upplýsinga- og samskiptamálum. Upphaflega átti ráðningin að vera til tveggja mánaða en starfstími Hrannars í ráðuneytinu lengdist og hann starfaði þar sem verkefnisstjóri út október síðastliðinn.
Þetta kemur fram í svari Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, um sundurliðaðan ráðuneytisins kostnað við sérfræði-, ráðgjafar- og kynningarstörf á árinu 2014 og 2015.
Greiðslur til félags Hrannars, sem heitir G 47 ehf., eru næst hæstu greiðslur til einstaks aðila sem ráðuneytið greiddi fyrir slík störf á tímabilinu. Mest fékk félagið Meltún ehf., í eigu lögmannsins Eiríks Svavarssonar, vegna vinnu fyrir ráðgjafahóps um afnám hafta. Alls greiddi forsætisráðuneytið félagi Eiríks 9,1 milljón króna fyrir þá ráðgjöf.
Stjórnarmaður í Seðlabankanum fékk sex milljónir
Þá fékk félagið Framlag ehf. 6,2 milljónir króna vegna vinnu fyrir ráðgjafahóp um afnám hafta. Framlag er í eigu Jóns Helga Egilssonar, sem situr meðal annars í stjórn Seðlabanka Íslands sem fulltrúi Framsóknarflokksins.
Seapool ehf., félag í eigu Sigurðar Hannessonar, fékk þrjár milljónir króna greiddar fyrir að vinna fyrir sérfræðingahóp um höfuðstólslækkun húsnæðislána. Sigurður leiddi þann hóp og var auk þess í lykilhlutverki í framkvæmdahópi stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Greiðslur vegna þeirra starfa eru ekki tilgreindar í sundurliðun forsætisráðuneytisins vegna fyrirspurnar Katrínar.
Þá fékk Stafnasel slf., félag í 99 prósent eigu Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, 6,7 milljónir króna fyrir verkefni vegna verðtryggingamála. Halldór Benjamín, sem er hagfræðingur, vakti athygli þegar hann stýrði hálftíma langri kynningu á skuldaniðurfærslunni, hinni svokölluðu Leiðréttingu, í nóvember í fyrra.