Seðlabanki Íslands vonast til þess að leggja niður Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) á árinu 2016. Bankinn segir ljóst að starfsemi ESÍ sé ekki til frambúðar heldur sé um að ræða sérstakt tímabundið skipulag vegna vörslu, úrvinnslu og stýringar krafna og fullnustueigna sem Seðlabankinn sat uppi með í kjölfar bankahrunsins. „Þegar kröfur hafa verið innheimtar og eignir seldar hefur félagið lokið hlutverki sínu og verður slitið. Jafnvel er vonast til þess að hægt verði að leggja niður ESÍ á komandi ári.“
Þetta kemur fram í greinargerð sem yfirstjórn Seðlabanka Íslands hefur tekið saman fyrir bankaráð hans vegna bréfs sem umboðsmaður Alþingis sendi 2. október 2015 vegna athugunar hans á meðferð gjaldeyrismála og umsýslu og meðferð krafna og eigna sem félög í eigu bankans fara með. Umboðsmaður gagnrýndi stofnun ESÍ í bréfi sem hann sendi fjármála- og efnahagsráðherra, bankaráði Seðlabanka Íslands, seðlabankastjóra og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í október, vegna athugunar sem hann hefur unnið á síðustu árum vegna atriða tengdum athugunum og rannsóknum Seðlabanka Íslands um ætluð brot á reglum um gjaldeyrishöft. Þar var fjallað sérstaklega um flutning verkefna Seðlabankans á við umsýslu og sölu eigna til ESÍ.
Umboðsmaður sagði að bankann ekki hafa haft skýra lagaheimild til að flytja verkefni við umsýslu og sölu eigna til ESÍ. Yfirstjórn Seðlabanka Íslands hafnaði þessari gagnrýni í ofangreindri greinargerð, sem var birt í dag.
„Ruslakista" troðfull af hruneignum
ESÍ hefur leikið stórt hlutverk í uppgjöri Seðlabanka Íslands við bankahrunið undanfarin ár. Inn í félagið, og dótturfélag þess Hildu, hefur þeim fullnustueignum og uppgjörssamningum sem Seðlabankinn hefur leyst til sín verið hrúgað. Á meðal þeirra eigna sem ESÍ heldur á eru allar kröfur Seðlabankans á Glitni, Kaupþing og Landsbankann. Félagið er því langstærsti innlendri kröfuhafi þeirra slitabúa, sem nú er stefnt að því að gera upp á næstu mánuðum. Það er oft kallað "ruslakista" Seðlabankans í hálfkæringi á meðal manna í viðskiptalífinu.
Í lok árs 2012 átti ESÍ bókfærðar eignir upp á 326 milljarða króna. Stjórnendur félagsins hafa verið duglegir við að selja eignir undanfarin ár og um síðustu áramót voru eignir þess metnar á 209 milljarða króna. Í ágúst auglýsti ESÍ dótturfélagið Hildu til sölu. Það félag á 364 fasteignir sem metnar eru á 6,6 milljarða króna, 387 útlán (til 260 lántakenda) og önnur skuldabréf sem metin eru á 5,7 milljarða króna og handbært fé/kröfur upp á 2,9 milljarða króna. Hilda á alls sex dótturfélög og hjá félaginu starfa 13 manns. Það hagnaðist um 1,5 milljarð króna á fyrstu sex mánuðum ársins og munaði þar langmestu um hreinar rekstrartekjur, sem eru sala eigna og lána á tímabilinu. Auk þess námu leigutekjur 139 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins.