Hækkun á gjöldum íslenska ríkisins á bensín- og kolefnagjaldi um komandi áramót gæti hækkað lítraverð á bensíni um 2,22 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Hækkun á olíu- og kolefnisgjaldi mun hækka lítrann af dísel um 1,93 krónur með virðisaukaskatti. Eftir þessa hækkun verður hlutur hins opinbera í bensínverði kominn í 56 prósent og 53 prósent af hverri greiddri krónu í dísilolíu mun renna til hins opinbera. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.
Útsöluverð á eldsneyti hefur lækkað töluvert það sem af er ári sökum þess að verð á heimsmarkaði á olíu hefur hrunið. Í júní 2014 kostaði tunna af Brent-olíu 115,9 dali. Hún kostar nú 36,03 dali og hefur því lækkað um 69 prósent á tímabilinu. Í júlí 2014 var algengsasta sjálfsafgreiðsluverð á Íslandi 249,9 krónur á lítra. Það er í dag 192,5 krónur á lítra og lægsta verður er 185,5 krónur á lítra á þremur bensínstöðvum Orkunnar. Verð á bensíni hefur því lækkað um 23 prósent hérlendis á umræddu tímabili.
Nokkrar ástæður eru fyrir því að lækkun á heimsmarkaðsverði skilar sér ekki beint í vasa íslenskra neytenda. Íslenskir eldsneytissalar þurfa til dæmis að gera ráð fyrir innkaupaverði, sköttum, álagningu og flutningskostnaði í útsöluverði sínu. Og gengi íslensku krónunnar skiptir líka máli, enda greitt fyrir eldsneyti með gjaldeyri. Íslenska krónan hefur lækkað töluvert gagnvart Bandaríkjadal frá því í júní á síðasta ári.
Þá fer stór hluti af ágóða hvers selds lítra í ríkissjóðs, líkt og rakið er að ofan.Vaninn er sá að hækkun á opinberum álögum á eldsneyti fari beint út í verðlagið. Þvi geta neytendur búist við því að finna fyrir hækkuninni snemma á næsta ári.
Íslendingar greiða fjóra milljarða of mikið í eldsneyti
Eldsneytismarkaðurinn á Íslandi hefur verið töluvert í sviðsljósinu á árinu 2015.
Samkeppniseftirlitið gaf út skýrslu um markaðsrannsókn sína á markaðnum í lok nóvember síðastliðins þar sem sagði að samkeppni á íslenskum eldsneytismarkaði sé „verulega skert“ og álagning olíufélaganna á bensín mikil. Eftirlitið sagði þetta mikið áhyggjuefni.
Bensínverð á Íslandi er hærra en gengur og gerist í flestum öðrum vestrænum ríkjum og munurinn er svo mikill að það er ekki hægt að skýra hann með smæð markaðarins eða auknum kostnaði vegna sölu eldsneytis hér á landi, sagði Samkeppniseftirlitið. Álagningin og óhagkvæmur rekstur olíufélaganna á þessu sviði bendir líka til þess að takmörkuð samkeppni sé fyrir hendi. Olíufélögin stunda háttsemi sem getur hindrað samkeppni og miklar aðgangshindranir eru fyrir nýja aðila að koma inn á þennan markað.
Samkeppniseftirlitið fullyrðir ekki hvort um samráð er að ræða, en sagði sterkar vísbendingar um að olíufélögin samhæfi hegðun sína með „þegjandi samhæfingu.“ Eftirlitið taldi að þörf sé á aðgerðum til að bæta hag almennings í bensínmálum, enda sé eldsneytismarkaðurinn þjóðhagslega mjög mikilvægur. Samkvæmt skýrslunni greiddu neytendur 4.000 til 4.500 milljónum króna of mikið í bensín á síðasta ári.
Grípa þyrfti til aðgerða til að auka samkeppni, sem myndi verða til hagkvæmari reksturs olíufélaganna og það myndi stuðla að lægra verði til neytenda. Það þurfi því að breyta aðgangshindrunum að markaðnum.