Frumvarp dönsku ríkisstjórnarinnar um að heimilt verði að gera upptækar eigur flóttafólks sem kemur til Danmerkur hefur vakið mikla athygli og einskorðast ekki við Danmörku og nágrannalöndin. Bandaríska dagblaðið Washington Post sagði ítarlega frá þessum fyrirætlunum dönsku stjórnarinnar og sagði þær vekja upp óhugnanlegar minningar frá síðari heimsstyrjöld.
Frumvarpið nýtur stuðnings meirihluta þingmanna. Sá hluti þess sem snýst um persónulegar eigur sem fólk hefur með sér við komuna til Danmerkur segir að; „venjulegir hlutir, eins og úr og farsímar skuli ekki gerðir upptækir. Sama gildir um hluti sem hafa sérstakt gildi fyrir eigandann, nema því aðeins að verðmæti hlutarins, eða hlutanna, sé svo mikið að ekki telst eðlilegt að undanskilja það. Reiðufé sem nemur um það bil 3 þúsund dönskum krónum (tæplega 60 þúsund íslenskar) fær eigandinn að halda, peninga umfram það skal lagt hald á.
Inger Støjberg ráðherra innflytjendamála hefur í viðtölum sagt að þetta séu sanngjarnar reglur, í Danmörku sé stefnan sú að eignafólk, borgi að ákveðnu marki fyrir þá þjónustu sem það njóti af hálfu samfélagsins (einkum gegnum skattkerfið) en þeir sem minna mega sín fái sömu þjónustu á öllum sviðum. Ráðherrann hefur bent á að eðlilegt sé að sömu reglur gildi um fólk sem kemur frá öðrum löndum.
Margir þingmenn lýsa efasemdum við eignaupptökuna
Eins og áður sagði nýtur frumvarpið stuðnings mikils meirihluta í þinginu en eftir að umræðan um eignaupptökuna gaus upp hafa margir þingmenn lýst efasemdum sínum um þann hluta frumvarpsins. Segja eitthvað á þá leið að mjög skýrar línur þurfi að marka varðandi hvað megi og hvað megi ekki. Sumir úr þessum hópi segja öldungis fráleitt að hringar verði rifnir af fingrum fólks, slíkt komi einfaldlega ekki til greina. Sé hrein mannvonska og lítilsvirðing við það fólk sem flúið hefur heimaland sitt og á í mörgum tilvikum ekkert annað en fötin sem sem það stendur í og nokkra persónulega hluti, til dæmis hringa.Talsmenn Danska þjóðarflokksins, sem styður frumvarpið, sjá ekki ástæðu til að vera með sérstaka fyrirvara um hvað megi og hvað ekki, þar eigi verðmætamatið að ráða.
Við erum ekki matsmenn segir lögreglan
Innanríkisráðherrann hefur sagt að það verði verk lögreglu að skoða eigur þeirra sem komi til landsins og meta hvort og hvað skuli lagt hald á. Þessar hugmyndir mælast ekki vel fyrir innan lögreglunnar. Formaður Landssambands lögreglumanna, Claus Oxfeldt, hefur lýst því yfir að þetta sé verkefni sem geti tæpast talist í verkahring lögregluþjóna. „Við erum ekki sérfræðingar í því að meta verðmæti og getum ekki metið hvort tiltekinn hringur kosti tíu þúsund krónur eða milljón.” Inger Støjberg ráðherra hefur svarað því til að hún telji að lögreglumenn sjái nú nokk hvort um sé að ræða ódýrt glingur eða glóandi gull. Líka komi til greina að fá sérstaka matsmenn, sérfræðinga, til verksins. Einn sérfræðingur sem danskt blað hafði samband við sagðist ekki ætla að taka að sér slíkt skítverk (beskidt stykke arbejde) yrði til sín leitað.
Saumað að ráðherranum
Danskir fjölmiðlar hafa undanfarna daga gengið hart að Inger Støjberg ráðherra og krafist undanbragðalausra svara varðandi skartgripamálið, sem þeir kalla líka demantamálið. Ráðherrann hefur staðið fast á sínu og sagt að stjórnin standi í einu og öllu við frumvarpið.
Í gær var tónninn þó örlítið breyttur. Þá sagði ráðherrann í viðtölum við danska miðla eitthvað á þá leið að hún treysti lögreglunni fullkomlega fyrir að fara með þetta mál og annast mat á skartgripum og öðru slíku. Og sagði svo að lögreglan hefði líka það val að spyrja ekki. Bætti svo við að flest fólk væri heiðarlegt og ef spurt væri við komuna til landsins hvort það hefði í fórum sínum verðmæti myndi það svara heiðarlega. Þessi orð vöktu athygli fréttamanna sem túlkuðu þau á þann veg að með þeim væri ráðherrann að draga í land og slá á gagnrýnisraddirnar.