Helmingur Íslendinga þénaði minna en 400 þúsund krónur á mánuði í fyrra en eitt prósent landsmanna var með meira en 1,8 milljón króna á mánuði. Heildartekjur landsmanna voru að meðaltali 421 þúsund krónur að jafnaði og hækkuðu um 6,6 prósent frá árinu áður. Þetta kemur fram tölum um tekjur einstaklinga á árinu 2014 sem Hagstofa Íslands birti í morgun.
Þar segir að heildartekjur Íslendinga hafi hækkað um 58 prósent miðað við fast verðlag frá árinu 1990. Þróun ráðstöfunar- og atvinnutekna er mjög svipuð árið 2014 og hún var árið 1990. Ráðstöfunartekjur voru hærri en atvinnutekjur á árunum 2003 til 2010 en þar munaði mest um góðærðisárið 2007.
Í tölum Hagstofunnar kemur fram að mikill munur sé á heildartekjum eftir aldri. Einstaklingar á aldrinum 45 til 50 ára voru með hæstu tekjurnar en landsmenn á aldrinum 16 til 19 ára með þær lægstu.
Karlar á aldrinum 45 til 50 ára eru með mun hærri laun en konur á sama aldri. Alls þéna karlarnir í þeim aldurshópi að meðaltali 675 þúsund krónur á mánuði en konurnar 483 þúsund krónur. Þar munar því um 40 prósentum. Þá kemur fram að fimm prósent karla hafi atvinnutekjur yfir um 1,1 milljónum króna á mánuði. Að sama skapi höfðu fimm prósent kvenna atvinnutekjur yfir 708 þúsund krónum á mánuði.
Því er enn langt í land að jafnræði ríki milli kynjanna í tekjum.
Ríkasta prósentið þénaði helming allra fjármagnstekna
Kjarninn greindi frá því í nóvember að tekjuhæsta eitt prósent landsmanna, alls 1890 manns, hefði þénað 42,4 milljarða króna í fjármagnstekjur á árinu 2014. Alls námu fjármagnstekjur sem einstaklingar og samskattaðir greiddu í fyrra 90,5 milljörðum króna og því fékk þessi litli hópur samtals 47 prósent þeirra tekna í sinn hlut. Um tvær af hverjum þremur krónum sem ríkasta prósent landsmanna þénaði í fyrra er vegna fjármagnstekna. Þetta mátti lesa úr staðtölum skatta vegna ársins 2014 sem birtar hafa verið á vef embættis ríkisskattstjóra.
Fjármagnstekjur eru tekjur sem einstaklingar hafa af fjármagnseignum sínum. Þ.e. ekki launum. Þær tekjur geta verið ýmis konar. Til dæmis tekjur af vöxtum af innlánsreikningum eða skuldabréfaeign, tekjur af útleigu húsnæðis, arðgreiðslur, hækkun á virði hlutabréfa eða hagnaður af sölu fasteigna eða verðbréfa.
Ef tekjurnar eru útleystar, þannig að þær standi eiganda þeirra frjálsar til ráðstöfunar, ber að greiða af þeim 20 prósent fjármagnstekjuskatt sem rennur óskiptur til ríkisins. Ljóst er að einungis lítill hluti af fjármagnstekjum var útleystur í fyrra. Alls greiddu íslensk heimili, einstaklingar og samskattaðir, 3,8 milljarða króna í fjármagnstekjuskatt á árinu 2014. Því til viðbótar greiddu fyrirtæki, sjóðir og ríkissjóður vel á þriðja tug milljarða króna í fjármagnstekjuskatt. Alls skilaði hann 30,6 milljörðum króna á árinu 2014.
Tekjuhæstu auka auð sinn hraðast
Kjarninn hefur áður greint frá því að sá fimmtungur landsmanna sem hafði hæsta tekjur á árinu 2014, alls tæplega 40 þúsund manns, hafi auki hreina eign sína um 142,2 milljarða króna á því ári. Tæpur helmingur aukningar á auði íslenskra heimila á síðasta ári féll í skaut þessa hóps. Þetta kom fram í tölum Hagstofu Íslands um eignir og skuldir Íslendinga í árslok 2014 sem birtar voru í lok september 2015.
Tekjuhæsta tíund landsmanna, 19.711 manns, sá auð sinn vaxa um 88,2 milljarða króna á árinu 2014. Á sama tíma óx hrein eign þess helmings þjóðarinnar sem er með lægstu tekjurnar, alls um eitt hundrað þúsund manns, um 72 milljarða króna, eða 16,2 milljarða króna minna en ríkasti hluti þjóðarinnar.