Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins, hefur skorað á David Cameron, forsætisráðherra Bretlands í að mæta sér og formönnum annarra flokka í sjónvarpskappræðum til að ræða stöðu Bretlands. Corbyn telur að slíkar kappræður muni hjálpa til við að draga Breta að þátttöku í stjórnmálum. Nicola Sturgeon, formaður Skoska þjóðarflokksins, og Tim Farron, formaður Frjálslyndra demókrata, hafa bæði sagt að þau muni taka þátt ef Cameron samþykkir að gera það líka. Samkvæmt frétt Independent um málið ætlar forsætisráðherrann, sem er einnig formaður Íhaldsflokksins, að skoða tillöguna.
Áskorun Corbyn kemur í kjölfar þess að rannsókn sem gerð varð við háskólann í Leeds var birt, en niðurstöður hennar sýndu að sjónvarpskappræður sem fram fóru í aðdraganda síðustu þingkosninga í Bretlandi höfðu mjög jákvæð áhrif á afskipti almennings að stjórnmálum. Samkvæmt rannsókninni sögðu um 70 prósent þeirra sem horfðu á sjónvarpskappræður í fyrsta sinn að þeir vissu nú meira um flokksleiðtoganna en áður og um 60 prósent sögðust vita meira um stefnumál þeirra. Corbyn segir í stöðuuppfærslu á Facebook að hann vilji með kappræðunum gera forsætisráðherrann og ríkisstjórnina ábyrga gagnvart almenningi oftar en bara í kringum kosningar. Hann segir vera að færa stjórnmálin til fólksins.