Mánaðarlaun Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbankans, hafa hækkað um 36 prósent frá því um mitt ár 2014. Með nýjum sérúrskurði kjararáðs í byrjun desember voru laun hans hækkuð um 20 prósent. Morgunblaðið greindi frá því í morgun að laun Steinþórs hefðu hækkað um 41 prósent með nýjustu ákvörðun kjararáðs fyrr í þessum mánuði. Það reyndist ekki rétt samkvæmt upplýsingum á vef kjararáðs. Laun Steinþórs eftir hækkunina eru 1.950 þúsund krónur á mánuði.
Fé lagt til hliðar til að leiðrétta laun bankastjóra
Landsbankinn er að nánast öllu leyti í eigu íslenska ríkisins og þess vegna ákvarðar kjararáð laun Steinþórs en ekki hinna bankastjóranna. Þetta er í þriðja sinn sem laun bankastjórans hafa verið hækkuð frá bankahruni.
Bankaráð og stjórnendur Landsbankans hafa verið ósátt með þetta fyrirkomulag og telja að þau kjör sem bankinn geti boðið séu ekki samkeppnishæg við kjör stjórnenda í stærri fyrirtækjum á fjármálamarkaði. Bankaráðið sendi meðal annars erindi til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þar sem það kvartaði yfir gildandi fyrirkomulagi og taldi það geta brotið í bága við stjórnarskrá og samninginn um Evrópska efnahagssvæðisins. ESA ákvað hins vegar ekki að að hafast neitt í málinu.
Stjórn Landsbankans ákváð fyrir nokkrum árum að leggja til hliðar fé vegna leiðréttingu launa Steinþórs. Í ársskýrslu bankans vegna ársins 2012 voru 47 milljónir króna færðar sem varúðarfærsla vegna „hugsanlegra leiðréttinga eða afturvirkra breytinga á launum og starfskjörum bankastjóra á árunum 2011 og 2012“. Ekkert hefur hins vegar verið lagt til hliðar vegna þeirrar leiðréttingar frá árinu 2013.
Sjö framkvæmdastjórar Landsbankans, sem heyra ekki undir lög um kjararáð, voru með hærri laun en bankanstjórinn í fyrra. Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka var með 4,3 milljónir króna á mánuði árið 2014 og Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, með um þrjár milljónir króna á mánuði. Bæði Arion banki og Íslandsbanki hafa auk þess tekið upp kaupaukakerfi sem juku tekjur bankastjóra þeirra.
Steinþór kominn í efsta prósentið
Laun stjórnenda í fjármálakerfinu skera sig úr þegar þau eru borin saman við laun flestra annarra starfshópa. Hagstofa Íslands greindi frá því fyrr í desember að helmingur Íslendinga þénaði minna en 400 þúsund krónur á mánuði í fyrra en eitt prósent landsmanna var með meira en 1,8 milljón króna á mánuði. Steinþór er samkvæmt þeim viðmiðum kominn í hóp þeirra eitt prósent landsmanna sem hafa hæstu launatekjurnar.
Heildartekjur landsmanna voru að meðaltali 421 þúsund krónur á árinu 2014 og hækkuðu um 6,6 prósent frá árinu áður.
Fréttin hefur verið uppfærð vegna upplýsinga frá Landsbankanum um að upphafleg frétt Morgunblaðsins, sem vísað var til, hafi ekki verið nákvæm.