Það var nóg af gæðaefni í boði á Kjarnanum síðustu daga.
Á gamlársdag fór Magnús Halldórsson yfir ítarlega spá The Economist um hvað muni gerast á árinu 2016 í heimi viðskipta og efnahagsmála. Þar kom meðal annars fram að auglýsingamarkaðurinn í Brasilíu mun vaxa um ellefu prósent vegna Ólympíuleikana á næsta ári, hvergi verður meiri hagvöxtur í en í Laos, átta prósent, og sala á rafmagnsbílum mun stóraukast, einkum eftir að ný og ódýrari tegund frá Tesla Motors, Model 3, verður kynnt í marsmánuði.
Um helgina birtist grein eftir Guðmundur Gunnarsson þar sem hann spurði hvar almenningur á höfuðborgarsvæðinu ætti að búa? „Eru iðnaðarhverfi, gámar og hjólhýsi nýja „Breiðholtið“ fyrir íslenska alþýðu ?,“ spurði Guðmundur.
Það tók Dani langan tíma að sætta sig við drottningarmanninn Hinrik, sem nú ætlar að draga sig í hlé. Borgþór Arngrímsson, fréttaritari Kjarnans í Kaupmannahöfn, sagði okkur allt um franska diplómatann sem varð prins í Danmörku.
Eignir íslenskra lífeyrissjóða ávöxtuðust um rúmlega tíu prósent á síðasta ári. En þegar horft er yfir lengra tímabil, hefur raunávöxtunin ekki verið svo góð, að því er fram kemur í skýrslu OECD. Friðrik Indriðason fór yfir málið í fréttaskýringu.
Svo er stórt ár framundan í Frakklandi. Freyr Eyjólfsson, fréttaritari Kjarnans þar í landi, lagðist yfir það helsta sem er framundan.