Ríkissjóður hefur greitt 49,9 milljarða króna inn á skuldabréf sem gefið var út eftir hrunið til að styrkja eiginfjárstöðu Seðlabanka Íslands. Greiðslan var innt af hendi undir lok síðasta árs og er um að ræða eina stærstu einstöku afborgun af skuldum ríkissjóðs til þessa. Afborgunin fór þannig fram að sjóðsstaða ríkissjóðs hjá Seðlabankanum var lækkuð.
Í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu vegna þessa segir að skuldabréfið hafi upphaflega verið gefið út í janúar 2009 til að styrkja eiginfjárstöðu Seðlabankans. Árleg afborgun af því átti að vera fimm milljarðar króna. „Á árinu 2015 greiddi ríkissjóður um 47 ma.kr. til viðbótar árlegri afborgun af bréfinu og nema eftirstöðvar þess í árslok um 90 ma.kr. Áætlað er að greiða bréfið upp að fullu á yfirstandandi ári. Að teknu tilliti til greiðslu á skuldabréfi Seðlabankans nam sjóðsstaða ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands um 88,5 ma.kr. í árslok 2015.
Ríkissjóður forgreiddi einnig stóran hluta af útistandandi erlendum lánum á síðasta ári eða um 103 ma.kr. Á fyrri hluta ársins keypti ríkissjóður tæplega helming af útistandandi skuldabréfaútgáfu í Bandaríkjadölum frá árinu 2011 eða sem samsvarar um 67 ma.kr. Í maí forgreiddi ríkissjóður lán frá Póllandi sem veitt var í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og námu þær um 7,5 ma.kr. Þá fyrirframgreiddi ríkissjóður svokallað Avens-skuldabréf í júlí að fjárhæð 28,3 ma.kr.
Á síðastliðnu ári fyrirframgreiddi ríkissjóður því um 150 ma.kr. af innlendum og erlendum skuldum. Umræddar fyrirframgreiðslur hafa að öðru óbreyttu um 7 ma.kr. áhrif til lækkunar vaxtagjalda á ári hverju. Heildarskuldir ríkissjóðs í árslok 2015 eru áætlaðar um 1.349 ma.kr. til samanburðar við 1.492 ma.kr. í árslok 2014. Samsvarar það um 10% lækkun skulda á milli ára. Á árinu 2016 er áætlað að skuldir ríkissjóðs lækki enn frekar og nemi 1.171 ma.kr. í lok ársins."