Sjávarútvegsfyrirtækin FISK Seafood á Sauðárkróki (í
eigu Kaupfélags Skagfirðinga) og Búlandstindur á Djúpavogi verða að sæta
tímabundnu innflutningsbanni á vöru sem þau framleiða til landa sem tilheyra
tollabandalagi Rússlands, Hvíta- Rússlands og Kasakstans. Sömu sögu er að segja
af afurður af Vilhelmi Þorsteinssyni EA, fjölveiðiskipi Samherja á Akureyri og
frá fiskvinnslu Ísfélags Vestmannaeyja í Þórshöfn. Bannið á þessa fjóra aðila
nær nú til Hvíta-Rússlands og Kasakstan einnig ofan á það innflutningsbann til
Rússlands sem lagt var á í ágúst 2015. Frá þessu er greint í DV.
Þar segir að ákvörðunin hafi verið tekið á aðfangadag og að hún taki gildi á fimmtudag, 7. janúar.
Rússabann lagt á í ágúst
Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, tilkynnti í ágúst að Ísland hefði verið bætt við á lista yfir lönd þaðan sem bannað er að flytja inn matvörur frá. Íslandi hefur þar með verið bætt á lista með Evrópusambandslöndum, Bandaríkjunum og Ástralíu en þessi lönd standa saman að viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi vegna átakanna í Úkraínu. Útgerðarmenn héldu því fram að tjón Íslands vegna þessa yrði gríðarlegt og mikill þrýstingur skapaðist, bæði pólitískt og úr viðskiptalífinu, um að taka viðskiptalega hagsmuni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja fram yfir þann málstað sem Ísland var að sýna samtöðu í málinu.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra brást hart við slíkum málflutningi og í viðtali við Sprengisand í ágúst sagði hann það óheiðarlegt hvernig sumir útgerðarmenn hafa talað um ákvörðun Íslands um að styðja viðskiptaþvinganir gegn Rússum. Ef menn taki eiginhagsmuni fram yfir heildarhagsmuni þá velti hann því óneitanlega fyrir sér hvort þeir séu bestu mennirnir til að fara með auðlindina.
Aldrei orðið fyrir jafn miklum þrýstingi
Gunnar Bragi sagði í viðtali við DV skömmu fyrir jól að sá stuðningur hafi þegar verið endurnýjaður. Þar sagði hann einnig að málið hefði verið það erfiðasta sem hann hafi þurft að takast á við og að mikill þrýstingur hefði verið á hann, jafnt innan flokks sem utan, að taka hagsmuni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja fram yfir þá hagsmuni sem hann taldi sig vera að verja með stuðningi við viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum. „Það er óhætt að segja að þrýstingurinn sé af ýmsum toga og úr ýmsum áttum. En það hafa engin rök verið færð fram þannig að ástæða sé til að breyta þessu. Þetta hefur verið mjög þungt og ég hef fundið að það voru alltof margir í samfélaginu sem eru reiðubúnir til að taka til fótanna þegar svona þrýstingur myndast. En þá verður maður sjálfur að setjast niður og hugsa hvað er rétt og hvað er rangt, hvað er eðlilegt og hvað er óeðlilegt.[...]Þetta er umdeilt innan flokksins[Framsóknarflokksins)[...]Það eru vissulega aðilar innan flokksins sem hafa ekki verið hrifnir af þessu. Þeir hafa sín rök, þó ég sé ekki sammála þeim."
Pólitískur titringur
Ljóst er að titringur er á hinum pólitíska vettvangi vegna ákvörðunar Gunnars Braga um áframhaldandi stuðning við aðgerðirnar. Í Fréttablaðinu á Þorláksmessu sagði að bæði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, vilji fara sér hægt í yfirlýsingar um afstöðu Íslands gagnvart áframhaldandi banni.
Þá hafa hagsmunasamtök útgerðarmanna, Samtök félaga í sjávarútvegi (SFS), látið mjög í sér heyra. Þann 22. desember birtust greinar eftir Kolbein Árnason, framkvæmdastjóra SFS, og Hauk Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóra þeirra, í Morgunblaðinu annars vegar og Fréttablaðinu hins vegar, þar sem afstaðan var gagnrýnd og sagt að stuðningur Íslands í aðgerðunum væri einungis táknrænn. Undir væru hins vegar tugmilljarða markaðir með uppsjávarfisk. Kolbeinn endurtók þessa afstöðu í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 sama kvöld.
Í gær var síðan rætt við Jens Garðar Helgason, stjórnarformann Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, í forsíðufrétt Morgunblaðsins. Þar segir Jens Garðar að viðskiptabann Rússa, sem lagt var á íslenskar vörur vegna stuðnings okkar við viðskiptaþvinganirnar, kosti þjóðina tólf til þrettán milljarða króna á árinu 2016. Jens Garðar ræddi einnig við fréttastofu RÚV í gær og sagði í samtali við hana að ummæli Gunnars Braga um endurnýjun stuðnings hefði verið ótímabær.