Eitt hundrað launagreiðendur - stofnanir eða fyrirtæki - greiða meira en þrjá fjórðu hluta allra launa í landinu á síðasta ári. Alls eru skráð tekjuskattskyld félög á Íslandi 39.813 talsins. 20 stærstu fyrirtæki landsins greiddu nálægt helmingi alls tekjuskatts sem greiddur var á árinu 2015. Fá fyrirtæki og stofnanir greiða þorra þess tryggingagjalds sem lagt er á laun. Þetta kemur fram í grein eftir Pál Kolbeins, rekstrarhagfræðing hjá Ríkisskattstjóra, í desemberútgáfu Tíundar, fréttablaði embættisins.
Hundrað stærstu fyrirtæki landsins greiða tæplega 60 prósent tekjuskatts sem greiddur var á árinu 2015. Þeir tíu aðilar sem mest var lagt á greiddu meira en fjórðung af álögðu tryggingargjaldi, eða alls 19,7 milljarða króna.
109 milljarðar frá fjármálageiranum í sérstaka skatta
Alls hækkaði greiddur tekjuskattur fyrirtækja um 7,8 milljarða króna milli ára. Um þriðjungur þeirrar upphæðar kom frá sjávarútvegsfyrirtækjum. Sú atvinnugrein sem greiðir mest er fjármála- vátryggingargeirinn, sem greiddi alls 22,8 milljarða króna í skatta á árinu 2015.
Fjármálafyrirtæki hafa einnig greitt mikið, alls 108,8 milljarða króna, í sérstaka skatta sem lagðir hafa verið á þau einvörðungu frá árinu 2011. Um er að ræða fimm nýja skatta sem lagðir voru á fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóði á tímabilinu. Tæpur fjórðungur af skatttekjum vegna álagningar á lögaðila í fyrra var vegna sérstakra skatta á fjármálafyrirtæki, eða 42,6 milljarðar króna. Það var samt sem áður minni upphæð en þau greiddu árið áður, eða 9,4 milljörðum krónum lægra. Þar munar mest um hinn svokallaða bankaskatt sem var hækkaður fyrir nokkru og látin ná yfir slitabú bankanna einnig.
Morgunblaðið fjallar um grein Páls í blaði dagsins. Þar er bent á að fyrirtæki nýti sér í miklum mæli heimild skattalaga til að flytja tap yfir á næsta ár. Það nýtist þá til frádráttar hagnaði sem gæti skapast á því ári og fyrirtækin þurfa ekki að greiða skatt af þeim frádrætti. Alls var yfirfæranlegt tap þeirra félaga sem búið var að skila álagningu fyrir í október 2015 um 7.400 milljarðar króna. Þar af áttu þau tíu fyrirtæki sem áttu mest af yfirfæranlegu tapi um 6.000 milljarða króna, eða 81,2 prósent alls yfirfæranlegs taps. Yfirfæranlegt tap hefur þó minnkað mikið á undanförnum árum, en það var um 9.000 milljarðar króna árið 2011.