Þrátt fyrir bætt efnahagsleg skilyrði hefur brottflutningu
íslenskra ríkisborgara frá Íslandi aukist á undanförnum tveimur árum. Fleiri Íslendingar
flytja frá landinu en flytja til þess. Frá árinu 1961 hafa verið átta tímabil
þar sem brottflutningur á hverju ári hefur verið yfir meðaltali áranna 1961 til
2015. Sjö þeirra tímabila hafa verið í tengslum við öfgar í efnahagslífi
þjóðarinnar á borð við brotthvarf síldarinnar, mikla verðbólgu eða hátt atvinnuleysi.
Eina tímabilið af þessum átta sem sker sig úr er 2014 til 2015 þar sem engar
hefðbundnar efnahagslegar forsendur eru fyrir auknum brottflutningi. Fólk
flytur frá Íslandi þrátt fyrir efnahagslegan uppgang.
Þetta kemur fram í nýrri greiningu frá Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) á brott- og aðflutningi til Íslands síðustu rúmu 50 árin.
Þróun sem á sér fá fordæmi
Í greiningunni segir að þeir brottflutningar sem fylgdu í kjölfar hrunsins hafi tekið enda 2013 þegar vinnumarkaður fór að rétta úr kútnum og störfum tók að fjölga. „Uppgangur í ferðaþjónustu var þá orðinn megindrifkraftur í fjölgun starfa, bæði með beinum hætti ásamt fjölgun afleiddra starfa t.d. í verslun, veitingum, hótelbyggingum. Sú þróun hefur haldið áfram undanfarin tvö ár auk þess sem efnahagsleg skilyrði hafa batnað. Kaupmáttur hefur vaxið, verðbólga hefur lækkað og atvinnuhorfur eru góðar. Bætt efnahagsleg skilyrði hafa hinsvegar ekki dregið úr brottflutningi Íslendinga, heldur þvert á móti hefur hann aukist undanfarið.“
Í tölum ASÍ kemur hins vegar fram að hlutirnir hafi breyst árið 2014. Þar segir að brottfluttir íslenskir ríkisborgarar hafi verið 0,29 prósent umfram aðflutta sem hlutfall af mannfjölda frá byrjun árs 2014 og út septembermánuð 2015. Það er ekki ósvipað hlutfall og brottflutningur var á fyrri brottflutningstímabilum.
Þróunin 2014-2015 sé hins vegar óvenjuleg og veki upp spurningar „þar sem brottflutningur Íslendinga eykst á sama tíma og vinnuaflseftirspurn kallar á fjölgun aðfluttra erlendra ríkisborgara. Slík þróun á sér fá fordæmi hér á landi.“
Vantar störf fyrir menntað fólk
Að mati ASÍ er ein möguleg skýring á landflótta Íslendinga aðstæður á vinnumarkaði. Einhæf fjölgun starfa undanfarin ár hafi ýtt undir misræmi framboðs og eftirspurnar vinnuafls. „Þannig hefur fjölgun starfa undanfarin tvö ár að mestu leyti verið drifin áfram af uppgangi í mannaflsfrekum greinum á borð við ferðaþjónustu og tengdum störf. Þær greinar hafa hins vegar litla þörf fyrir menntað vinnuafl t.d. iðn-, tækni- eða háskólamenntað. Skýr merki um þessa þróun sjást í samsetningu atvinnulausra þar sem hlutfall háskólamenntaðra fer nú sífellt hækkandi.“
ASÍ segir að reynslan sýni að hagvöxtur og jákvæð efnahagsleg skilyrði dragi úr búferlaflutningum Íslendinga og því sé ekki ólíklegt að sú verði raunin á næstu árum miðað við núverandi horfur í hagkerfinu. „Ef ástæða brottflutninga er hins vegar lítið framboð verðmætra starfa, ósamkeppnishæf lífskjör auk skorts á framtíðarsýn og tækifærum þá er það verulegt áhyggjuefni.“
Pólitísk átök um tölur
Í nóvember 2015 birti Morgunblaðið frétt þar sem sagði að alls hafi 3.210 íslenskir ríkisborgarar flutt frá Íslandi á fyrstu níu mánuðum ársins 2015, eða um 1.130 fleiri en fluttu til þess. Brottfluttir íslenskir ríkisborgara umfram heimkomna hefðu einungis fimm sinnum verið fleiri samkvæmt gagnagrunni Hagstofu Íslands, sem nær til 1961. Það voru árin 1970, 1995, 2009, 2010 og 2011. Öll þau ár komu hins vegar í kjölfar kreppuára, þ.e. ára þar sem samdráttur ríkti í íslensku hagkerfi. Það er ekki raunin nú, þar sem hagvöxtur hefur verið hérlendis frá árinu 2011. Því er ekki um kreppuflutninga að ræða.
Þar var einnig rætt við Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands. Hann segir að það virðist eitthvað djúpstæðara á ferðinni og að vísbendingar séu um að margt háskólafólk flytji úr landi. Batinn á vinnumarkaði, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, hefði ekki skilað sér til menntaðs fólks nema að takmörkuðu leyti.
Hagstofa Íslands brást við fréttinni með því að birta í lok nóvember þar sem sagði að engarmarkverðar breytingar hafi átt sér stað á hlutfalli íslenskra ríkisborgara sem fluttu til og frá landinu á mismunandi aldursbili árið 2015 borið saman við sambærilegt hlutfall áranna 1986 til 2014. Aukin fjöldi brottfluttra er ekki umfram það sem telja má eðlilega sveiflu miðað við fyrri ár.
Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, og Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar,vísuðu báðir til fréttar Hagstofunnar í stöðuuppfærslum á Facebook í kjölfarið. Jóhannes Þór sagði að þá geti fólk „hætt að fabúlera um að ungt fólk sé að flýja ríkisstjórn og „Kafkaíska" spillingu á Íslandi miklu meira en áður. Hagstofan segir nefnilega að það sé barasta ekkert þannig.“
Sagði frétt Hagstofu stórfurðulega
Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands og fyrrum efnahags- og viðskiptaráðherra, blandaði sér einnig í umræðurnar og sagði leiðréttinguna sem Hagstofa Íslands sendi frá sér vegna fréttar Morgunblaðsins um fólksflutninga frá Íslandi hafi verið „stórfurðuleg“ og skildi ekkert í því af hverju Hagstofan láti slíka frétt frá sér. Gylfi sagði tölur Hagstofunnar tala skýru máli. „Frá 1961 hafa brottfluttir með íslenskt ríkisfang verið að meðaltali 0,18% af fólksfjölda á hverju ári. Árið 2013 var hlutfallið komið niður í 0,01% en hefur síðan farið ört hækkandi. Í fyrra var það 0,23%, þ.e. meira en í meðalári og miðað við fyrstu þrjá ársfjórðunga þessa árs verður hlutfallið 0,46% í ár - sem er tala sem áður hefur yfirleitt bara sést í efnahagskreppum. Brottflutningur íslenskra ríkisborgara í ár stefnir í að verða meiri en í krísunni 2008 til 2012.“
Kjarninn birti í kjölfarið Pælingu dagsins þar sem spurt var hvort Hagstofa Íslands hafi verið að bregðast við pólitískum þrýstingi með frétt sinni. Ólafur Hjálmarsson hagstofustjóri brást við með því að skrifa aðsenda grein þar sem hann neitað því.
Forsætisráðherra gagnrýnir þá sem héldu brotflutningi fram
Sigmundur Davíð gerði svo ofangreind skoðanaskipti, og umræðu um þau, að umfjöllunarefni í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu. Þar sagði hann að, eins undarlegt og það væri, virtist afmarkaður en hávær hópur fólks eiga erfitt með að sætta sig við góðar fréttir. Jákvæð þróun veki hjá hópnum gremju, hún sé litin hornauga og tortryggð á allan mögulegan hátt. Þetta sé sá hópur fólks sem getur ekki sætt sig við að jákvæðir hlutir gerist ef þeir gerast ekki í krafti hinnar einu „réttu“ hugmyndafræði.
Svo sagði forsætisráðherra: „Lýsandi dæmi um þetta birtist fyrir fáeinum vikum þegar hópi fólks gramdist mjög að Hagstofa Íslands skyldi benda á að engin markverð breyting hefði orðið á hlutfalli íslendinga, á mismunandi aldursbili, sem fluttu frá landinu árið 2015. Raunar reyndist hlutfall brottfluttra undir 40 ára aldri lágt í samanburði við liðin ár og áratugi.
Áður hafði hinu gagnstæða verið haldið fram og mikið úr því gert. -Loksins var búið að finna eitthvað sem kallast gat neikvæð þróun, haldreipi í straumi jákvæðrar þróunar samfélagsins. Reyndar var alltaf ljóst að mun fleiri hefðu flutt til landsins en frá því árið 2015 en haldreipið fólst í þeirri kenningu að óvenju margir ungir íslenskir ríkisborgarar væru að flytja frá landinu.
Þegar Hagstofan birti svo tölfræði sem sýndi hið rétta,tölur sem ættu að hafa verið flestum fagnaðarefni, brást neikvæði hópurinn hinn versti við og gengu sumir jafnvel svo langt að ráðast á Hagstofuna fyrir það eitt að birta tölfræðilegar staðreyndir. Stofnunin var sökuð um að hafa falsað tölurnar og það hlyti hún að hafa gert vegna pólitísks þrýstings. Svo langt voru sumir til í að ganga til að verja hina neikvæðu heimsmynd sína að þeir voru tilbúnir til að beita embættismenn ógnunum, -embættismenn hjá stofnun sem birtir tölfræði. Þar skyldu menn búast við árásum ef birtar yrðu tölur sem ekki féllu að hinni dökku heimsmynd."