Lífeyrissjóðir landsins hafa fengið heimild til að fjárfesta fyrir 20 milljarða króna erlendis fyrstu fjóra mánuði ársins. Sömu aðilar fengu heimild í júlí síðastliðnum til að fjárfesta fyrir tíu milljarða króna erlendis. Um er að ræða fyrstu nýfjárfestingar íslenskra lífeyrissjóða utan íslensks hagkerfis síðan að fjármagnshöft voru sett síðla árs 2008.
Seðlabanki Íslands tilkynnti um hinar auknu heimildir í tilkynningu fyrr í dag. Þar segir að „gjaldeyrisinnstreymi á nýliðnu ári og minni óvissa um þróun greiðslujafnaðar í framhaldi af samþykkt kröfuhafa slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja á frumvörpum til nauðasamninga hefur skapað svigrúm til frekari fjárfestingar lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila séreignarsparnaðar í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri. Í slíkum fjárfestingum felst þjóðhagslegur ávinningur þar sem lífeyrissjóðunum er gert mögulegt að bæta áhættudreifingu í eignasöfnum á sama tíma og dregið er úr uppsafnaðri erlendri fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna þegar fjármagnshöft verða losuð. Þar með er dregið úr hættu á óstöðugleika við losun fjármagnshafta. Til lengri tíma litið hafa þessar auknu heimildir sjóðanna næstu mánuði engin áhrif á gjaldeyrisstöðuna því gera má ráð fyrir að gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna á næstu mánuðum muni draga úr þörf þeirra til gjaldeyriskaupa í framtíðinni."
Fjárfestingarheimildinni verður skipt á milli lífeyrissjóðanna og annarra vörsluaðila með þeim hætti að annars vegar verður horft til samtölu eigna sem fær 80 prósent vægi og hins vegar til iðgjalda að frádregnum lífeyrisgreiðslum sem fær 20% prósent vægi.
Dropi í hafið
Lífeyrissjóðirnir fengu fyrst undanþágu til að fjárfesta utan hafta í júlí síðastliðnum. Þá þáttu þeir að fá að kaupa eignir utan landssteinanna fyrir tíu milljarða króna. Þar sem heildareignir lífeyriskerfisins íslenska eru yfir þrjú þúsund milljarðar króna þá var ljóst að um afar litla heimild var að ræða þegar hún er sett í samhengi við stærð kerfisins. Í september 2015, örfáum mánuðum eftir að heimildin var sett inn, voru sjóðirnir enda búnir að fjárfesta nánast fyrir hana alla, eða 9,4 milljarða króna.
Heimildin var með eilítið öðrum hætti þá en nú. Henni var skipt á milli lífeyrissjóðanna með þeim hætti að annars vegar hefur verið horft til stærðar sem fengið hefur 70 prósent vægi og hins vegar til hreins innstreymis sem fengið hefur 30 prósent vægi. Nú fá eignir, líkt og áður sagði, 80 prósent vægi en hreint innstreymi 20 prósent við úthlutun heimilda.