Stjórnarskrárnefnd hefur ekki náð sátt um hversu víðtækt ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu sem 15 prósent kosningabærra manna á að gera krafist að fari fram verði. Sátt er um að ekki verði hægt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um fjárlög, skattalög og lög til að framfylgja þjóðréttarlegum skuldbindingum en hluti nefndarmanna vill einnig að hægt verði að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um þingsályktunartillögur sem feli í sér þjóðréttarlegar skuldbindingar. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.
Þar segir einnig að nefndin, sem þegar hefur fundað í á fjórða tug skipta, muni funda í dag og aftur næsta mánudag. Allt kapp sé lagt á að ná sameiginlegri niðurstöðu um tillögur til stjórnarskrárbreytingar áður en þing kemur aftur saman 19. janúar næstkomandi. Áður en það gerist hyggst nefndin skila tillögum sínum til forsætisráðherra, annað hvort í sátt eða ósátt.
Stefnt er að, náist sátt um tillögurnar, að hægt verði að afgreiða þær á Alþingi í vor og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þær sex mánuðum síðar. Til þess að tillögurnar breyti stjórnarskránni þurfa tveir þriðju hlutar þingmanna að samþykkja málið og meirihluti þátttakenda í þjóðaratkvæðagreiðslu sem samanstandi að að lágmarki 40 prósent þeirra sem eru á kjörskrá.
Nefndin var skipuð í nóvember 2013 og allir fulltrúar stjórnmálaflokka á þingi eiga fulltrúa í henni. Hún hefur fundað í á fjórða tug skipta síðan þá. Henni var falið að kanna fýsileika stjórnarskrárbreytinga er snúa að framsali ríkisvalds vegna alþjóðasamstarfs, þjóðareign náttúruauðlinda, umhverfismálum og þjóðaratkvæðagreiðslum að kröfu kjósenda. Vilji var til að nefndin myndi skila tillögum sínum á nýloknu haustþingi svo Alþingi gæti afgreitt þær þannig að hægt yrði að kjósa um breytingarnar í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum sumarið 2016.
Stórar tillögur stjórnarlagaráðs ekki til umræðu
Á síðasta kjörtímabili lagði stjórnlagaráð, sem kosið var til af þjóðinni, fram frumvarp um miklar breytingar á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Frumvarpið var lagt fram árið 2011. Kosið var um tillögur ráðsins haustið 2012 þar sem tveir af hverjum þremur sem tók þátt í kosningunum sagðist vilja að tillögur ráðsins yrðu lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Í tillögunum var meðal annars að finna ákvæði um að auðlindir yrðu þjóðareign og að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, líkt og verður að öllum líkindum i frumvarpi stjórnarskrárnefndar.
Þar voru einnig tillögur um stórtækar breytingar á íslenska kosningakerfinu þar sem lagt var til að heimila aukið persónukjör og að atkvæði landsmanna myndu öll gilda jafn mikið, en mikið ósamræmi er í því vægi á milli landshluta í dag. Báðar tillögurnar voru samþykktar með yfirgnæfandi meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október 2012. Þær eru hins vegar ekki sjáanlegar í vinnu stjórnarskrárnefndar.
Forsetinn segir andlýðræðislegt að kjósa samhliða forsetakosningum
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra skipaði stjórnarskrárnefnd í nóvember 2013. Hlutverk hennar var að vinna ákveðnar breytingar á stjórnarskrá í kjölfar þess að frumvarp stjórnlagaráðs náði ekki í gegn á síðasta kjörtímabili.
Páll Þórhallsson sagði við Morgunblaðið í ágúst að stjórnarskrárnefnd stefndi að því að skila skýrslu í formi frumvarps til Alþingis á allra næstu vikum. Það þyrfti að gerast svo hægt yrði að nýta sér bráðabirgðaákvæði um breytingar á stjórnarskránni og halda atkvæðagreiðslu um þær samhliða forsetakosningum. „Þetta þarf að afgreiðast á Alþingi fyrir jól og þingið þarf að minnsta kosti nokkrar vikur til að ræða frumvarpið. Þess vegna höfum við lagt allt kapp á að skila þessu af okkur í september svo að hægt verði að leggja fram frumvarpið um og upp úr næstu mánaðamótum.“
Þetta varð ekki og við þingsetningu í byrjun september tók Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, skýra afstöðu gegn fyrirhuguðu ferli. Þar sagði hann: „Að tengja verulegar breytingar á stjórnarskrá landsins við kosningar á forseta lýðveldisins er andstætt lýðræðislegu eðli beggja verkefnanna.“ Hann sagði einnig að tenging þessara tveggja kosninga væri „jafnvel andlýðræðisleg í eðli sínu.“ Það væri nauðsynlegt að stjórnskipan landsins sé ekki í uppnámi þegar þjóðin velur forseta að vori, en slíkt uppnám gæti verið vegna óvissu um ákvæði sem beint eða óbeint breyta valdi og sessi forsetans.
Segir stjórnarflokkanna standa í vegi fyrir afgreiðslu
Tekist var á um málið úr ræðustóli Alþingis snemma í desember. Þar vakti Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, máls á því að ekkert bólaði á tillögum stjórnarskrárnefndar þrátt fyrir tugi funda. Alltaf hafi þó komið eitthvað babb í bátinn hjá stjórnarflokkunum, Framsóknarflokki eða Sjálfstæðisflokki, þegar til stæði að afgreiða tillögurnar úr nefnd. „Þetta þýðir bara að þessar breytingar munu ekki koma til kasta þjóðar né þings á þessu kjörtímabili,“ sagði Birgitta og benti á að ekki sé einu sinni fjárveiting fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu á árinu 2016 í fjárlagafrumvarpinu.