Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, freistar þess nú í annað sinn með lagafrumvarpi að heimila erlend lán til einstaklinga og lögaðila sem hafa ekki tekjur í öðru en krónum. Seðlabankinn hefur ítrekað varað við því að lántökur til þeirra sem geta ekki varið sig fyrir gengissveiflum verði heimilaðar, en ekki hefur verið tekið tillit til þeirra.
Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gær, en Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, er á móti frumvarpinu og telur að ef það verður að lögum, þá geti þau ýtt undir misskiptingu, til viðbótar við að grafa undan fjármálastöðugleika og krónunni, eins og bæði Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hafa varað við að geti gerst. „Þetta er sem sagt hópur sem væntanlega hefur mjög miklar tekjur í krónum sem getur gert þetta. Allur almenningur getur ekki gert það en hann þarf hins vegar að lifa við áhættuna sem þetta skapar. Þá er spurningin hvernig þjónar það almannahagsmunum að innleiða slíkt ákvæði?,“ Frosti í viðtali við Stöð 2.
Fjármálaráðherra lagði frumvarp um sama efni á síðasta þingi en það náði ekki fram að ganga. ESA, eftirlitsstofnun EFTA, komst að þeirri niðurstöðu í ákvörðun að fortakslaust bann við erlendum lánum væri brot á EES-samningnum. Framlagning frumvarpsins er liður í því að bregðast við ákvörðun ESA, en samkvæmt ákvörðun ESA er ekkert sem mælir á móti því að takmarkanir verði settar fyrir gengistryggðum lántökum.
Eins og alkunna er lentu margir einstaklingar og fyrirtæki í miklum vanda þegar krónan féll samhliða hruni fjármálakerfisins, vegna þess hve höfuðstóll gengistryggðra lána hækkaði mikið. Hæstiréttur dæmdi gengistryggingu lána ólöglega, 16. júní 2010, og voru mörg lán lækkuð í kjölfarið á því. Óvissa hefur þó verið um gengistryggð lán fjölmargra, þar sem samningar voru mismunandi að formi og efni, og dómar fallið með mismunandi hætti.
Félag atvinnurekenda hefur sagt, að bankarnir hafi gengið hart fram gagnvart mörgum viðskiptavinum sínum sem voru með gengislán, og þannig grafið undan góðu viðskiptasambandi. Sagði Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í viðtali við Viðskiptablaðið, að bankarnir ættu frekar að semja við viðskiptavini sína á viðskiptalegum forsendum um lán sem væru í ágreiningi, til þess að halda áfram traustu viðskiptasambandi og leyfa lífvænlegum rekstri að halda áfram.