Breski tónlistarmaðurinn David Bowie féll frá í gær, 69 ára að aldri, en banameinið
var krabbamein. Hann veiktist fyrir átján mánuðum. Nýjasta plata hans, Blackstar,
kom út á afmælisdaginn hans, 8.janúar síðastliðinn. Hann sendi frá sér um 30 hljóðversplötur á ferlinum.
Bowie er í dag minnst sem eins áhrifamesta listamanns sem komið hefur fram. Hann er einn fárra listamanna sem á tæplega 50 ára löngum ferli tókst á við ólíka strauma og stefnur í tónlistinni, og sagði sögur með lögum sínum sem hreyfðu við fólki á öllum aldri.
Listamenn minnast hans með miklum hlýhug. Madonna lýsir honum sem „einstökum snillingi“ sem hafi breytt sögunni með list sinni. Sama er uppi á teningnum hjá fjölmörgum öðrum, sem segja Bowie hafa þrifist á áskorunum og rutt brautina fyrir aðra með hugmyndaauðgi og nýsköpun sem ekki eigi sér neina hliðstæðu í tónlistarsögunni.
Bandaríski tónlistarmaðurinn Kanye West segir Bowie hafa verið leiðarljós fyrir aðra með „óttaleysi“ og frumleigheitum, og ýmsir svartir tónlistarmenn, þar á meðal rapparinn MC Hammer, þakka honum fyrir að standa með svörtum tónlistarmönnum í gegnum tíðina, þegar þeir hafa mætt misrétti af einhverju tagi. Það gerði Bowie meðal annars á áttunda áratugnum þegar MTV sjónvarpsstöðin þótti sniðganga áhrifamikla svarta tónlistarmenn.
Enginn mun stíga í sporin sem Bowie skilur eftir sig, en lög hans lifa og halda áfram að gleðja fólk og veita því innblástur um ókomna tíð.
Það er táknrænt fyrir hans miklu áhrif á ótrúlegum og litríkum ferli, að þegar hann féll frá, þá hljómuðu lög hans í nær öllum búðum í Suður-London, við Brixton, þar sem hann var fæddur og uppalinn. Það sama átti við um mörg önnur hverfi í ýmsum borgum og bæjum Bretlands. Í Brighton hefur tónlist hans verið sérstaklega áberandi í allan dag, þar sem fallin „hetja“ er hyllt.
Allt frá því að hann fangaði heiminn með fyrsta vinsæla lagi sínu, meistaraverkinu Space Oddity, var ljóst að þarna voru nýir straumar á ferðinni sem tónlistarheimurinn hafði ekki fundið fyrir áður. Það reyndist bara byrjunin á einstökum ferli.
Bowie lést umkringdur vinum og fjölskyldu á Manhattan í New York, þar sem hann bjó.